20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Góð staða hjá Menningarfélagi Akureyrar
Veruleg tekjuaukning er á milli ára hjá Menningarfélagi Akureyrar, eða 42%. Rekstrarniðurstaða Menningarfélags Akureyrar er jákvæð og í samræmi við fjárhagsáætlanir félagsins fyrir nýliðið starfsár. Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi þess sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi 30. október síðastliðinn.
Tekjur félagsins hafa aukist verulega milli ára. Munar þar mestu um aukningu á sjálfsaflafé sem nam 43% af heildartekjum félagsins á rekstrarárinu. Tekjuaukningin er tilkomin vegna tvöföldunar á miðasölutekjum, sem og vegna aukningar á tekjum SinfoniaNord sem námu 44 mk.r. á árinu. Tekjur félagsins af útleigu húsnæðis og þjónustu jukust um 20% á milli ára og hækkun á opinberum framlögum nam 18 % á milli ára.
„Í stefnu Menningarfélags Akureyrar er áhersla lögð á að efla atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar á Akureyri en listamenn sem starfa í verkefnum á vegum Menningarfélags Akureyrar hafa aldrei verið fleiri en á liðnu rekstrarári. Félagið greiddi rúmlega 240 listamönnum laun á árinu en heildargreiðslur til þeirra námu samtals um 85 milljónum króna. Hjá félaginu störfuðu jafnframt 43 laus- og fastráðnir starfsmenn í 21 stöðugildi, sem er 10% aukning á milli ára. Þá er ljóst að stöðugildum mun jafnframt fjölga á því starfsári sem nú er hafið. Það er ekki síst að þakka góðri verkefnastöðu SinfoniaNord, metnaðarfullum og umfangsmiklum uppfærslum Leikfélags Akureyrar og góðri bókunarstöðu í Menningarhúsinu Hofi,“ segir í tilkynningu.
Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarélags Akureyrar, segir félagið ná ótrúlegum árangri á stuttum tíma.
„Við höfum auðvitað fundið fyrir þessari aukningu og starfsfólkið hefur unnið hreint frábært starf. Ég er stolt af árangrinum og þakklát fyrir að taka þátt í þessu ævintýri, það eru forréttindi að vinna í skapandi greinum og með svona kraftmiklu fólki,“ segir Þuríður Helga.