Góð rekstrarstaða hjá Akureyrarbæ
Akureyrarbær var rekinn með 463 milljóna króna afgangi í fyrra en áætlun hafði gert ráð fyrir 86 milljóna króna halla. Ársreikningar Akureyrarbæjar fyrir árið 2019 voru lagðir fram á síðasta fundi bæjarráðs. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar var viðunandi og niðurstaða ársins nokkru betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
Á vef bæjarins segir að það muni um miklu að niðurstaða rekstrar A-hluta, það er starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, var jákvæð um 57 milljónir króna, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 629 milljónir. Sjóðstreymi ársins 2019 var líka betra en áætlað hafði verið.
Traustur fjárhagur en óvissa vegna Covid-19
Mjög óvenjulegar aðstæður hafa skapast vegna Covid-19 faraldursins og ríkir veruleg óvissa um það hverjar afleiðingarnar verða eða hversu lengi þeirra mun gæta. Viðbúið er að áhrif á rekstur sveitarfélagsins verði umtalsverð m.a. vegna lægri tekna og aukinna útgjalda. „Fjárhagur Akureyrarbæjar er hins vegar traustur og skuldastaða tiltölulega lág. Bærinn er því fremur vel í stakk búinn til að takast á við efnahagslegar afleiðingar faraldursins þótt einsýnt sé að niðursveiflan muni hafa áhrif á afkomuna árið 2020,“ segir á vef Akureyrarbæjar.