„Góð fyrirheit um gott golfsumar“
„Við erum um fjórum vikum á undan hvað varðar vallaraðstæður og grasið kemur mjög vel undan vetrinum,“ segir Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar sem heldur opnunarmótið á Jaðarsvelli um helgina.
Vorið hefur verið einstaklega hlýtt á Norðurlandi og golfarar njóta góðs af því. Spilað verður á iðagræn sumargrín á öllum 18 holum vallarins á laugardaginn kemur. Völlurinn opnaði þann 7. maí sem er um viku seinna en í fyrra.
Steindór segir hins vegar að vallaraðstæður séu mun betri nú en þá. „Og töluvert betra en á meðalári. Það er ekki oft sem maður sér þetta svona,“ segir Steindór.
Man ekki eftir jafngóðum aprílmánuði
Steindór hefur starfað lengi á Jaðarsvellinum en segist varla muna eftir álíka vori. „Ég man ekki eftir svona áberandi góðum og jöfnum apríl. Það munar gríðarlega mikið um að fá góða byrjun á vorinu, þá er kominn góður grunnur fyrir sumarið. Þetta gefur góð fyrirheit um gott golfsumar,“ segir Steindór.