Fyrstu nemendurnir ljúka námi
Fyrstu nemendurnir til að ljúka 5. og síðustu lotu stjórnendanáms á vegum Símenntunar Háskólans á Akureyri tóku við skírteinum sínum sl. föstudag. Námið er samstarfsverkefni starfsmenntasjóðs Sambands stjórnendafélaga og Samtaka atvinnulífsins en Símenntun Háskólans á Akureyri sér um að halda utan um skráningu og kennslu. Um er að ræða fjarnám sem millistjórnendur í fyrirtækjum og stofnunum eiga kost á að stunda með fullri vinnu.
„Millistjórnandinn hefur mun viðameira hlutverki að gegna en áður var. Það eru ótal þættir sem koma inn s.s. veikindi aðstandenda, fíknivandi, fjölmenning, kulnun í starfi og almenn vanlíðan starfsfólks. Allt þetta þarf millistjórnandinn að geta tekist á við ef ekki á illa að fara. Þetta nám, sem Samband stjórnendafélaga hafði forgöngu um, er að mínu mati mjög hagnýtt verkfæri fyrir alla þá sem hafa mannaforráð í fyrirtækjum,“ segir Stefán Guðnason, verkefnastjóri hjá Símenntun Háskólans á Akureyri.
Frábært tækifæri
„Þetta nám er frábært tækifæri fyrir millistjórnendur að leggja mat á eigin þekkingu, leikni og hæfni í starfi,“ segir Skúli Sigurðsson, forseti Sambands stjórnendafélaga. „Námið gagnast mjög vel og nemendur eru sammála um að þeir öðlast þekkingu í mannauðsstjórnun og leikni til að greina, bregðast við og meta árangur aðgerða er varðar undirmenn, aðstæður þeirra og líðan í starfi. Nemendur geta fengið styrk úr starfsmenntasjóði STF og SA sem stendur undir 80% kostnaðar og oft leggja fyrirtækin til það sem upp á vantar.“