13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Fresta Goðamótunum vegna kórónuveirunnar
Íþróttafélagið Þór hefur ákveðið að fresta Goðamótunum í knattspyrnu vegna kórónuveirunnar. Segir á vef Þórs að eftir stöðug fundarhöld sé það ljóst að eindregin vilji félagsins sé að fresta Goðamótunum til vorsins, eða þar til ástandið skánar vegna Covid-19 veirunnar.
Mótið átti að fara fram um næstu tvær helgar. Á vef Þórs segir að nýjar dagsetningar á mótunum séu 15.-17. maí fyrir 6. flokk karla og 1.-3. maí fyrir 5. flokk kvenna.
Þór gaf það út í byrjun vikunnar að mótið myndi fara fram þrátt fyrir kórónufaraldursins og var sú ákvörðun umdeild meðal margra foreldra sem tjáðu sig um ákvörðunina á Facebooksíðu Goðamótsins. Þar var harðlega gagnrýnt að halda ætti mótið þrátt fyrir smithættu á Covid 19-veirunni.
Í yfirlýsingu frá Þór segir:
„Sú ákvörðun að halda mótahaldi til streitu var tekin út frá okkar bestu vitund miðað við tilmæli ÍSÍ og þeirra samtali við Landlæknisembættið á fundi sem haldinn var í gær. Þeir sem að mótinu standa eru ekki sérfræðingar á þessu sviði og ekkert fordæmi er fyrir þeirri stöðu sem er uppi. Ákvörðunin var því erfið, líkt og sú ákvörðun sem hefur verið tekin nú og er endanleg.
Vonum við að fólk úti í knattspyrnusamfélaginu sýni því skilning að við töldum okkur vera að halda mótið í góðri trú og biðjumst við velvirðingar á því ef ákvarðanir okkar ollu þeim félögum og þátttakendum sem mótið ætluðu að sækja, óþægindum. Afstaða Íþróttafélagsins Þórs er sú að við viljum þátt í því að axla þá samfélagslegu ábyrgð að hefta útbreiðslu Covid-19 veirunnar og þar með geyma allt mótahald á vegum knattspyrnudeildar félagsins þar til ástandið skánar,“ segir á heimasíðu Þórs.