Franska kvikmyndahátíðin á Akureyri
Franska kvikmyndahátíðin fer fram á Akureyri um helgina en í tilkynningu segir að franska sendiráðið, Alliance Française og Institut de France, fagni því að hafa fengið stuðning Akureyrarbæjar til að halda Frönsku kvikmyndahátíðina á Akureyri nú í febrúar. Opnunarmyndin er Fagra veröld (La Belle époque) sem sýnd verður í Borgarbíói annað kvöld, fimmtudaginn 6. febrúar kl. 18:00.
Myndin hlaut 4,5 stjörnur af 5 hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins og er tilnefnd til 10 verðlauna á frönsku César kvikmyndahátíðinni sem fer fram 28. febrúar næstkomandi. Fagra veröld er stórkostleg rómantísk gamanmynd sem fjallar um Daníel. Honum gefst kostur á því að endurlifa fortíð sína í þeim tilgangi að bjarga hjónabandinu. Seiðmögnuð kvikmynd sem endurspeglar ástina, minningarnar og fortíðarþrána, segir um kvikmyndina sem er sýnd með íslenskum texta.
Sýningin er ókeypis og opin öllum en nauðsynlegt er að taka frá sæti á vefnum www.visitakureyri.is. Aðrar myndir á dagskránni eru klassíska glæpamyndin Forynjurnar (Les Diaboliques) frá 6. áratug síðustu aldar, Sjúklingar (Patients), Litli bóndinn (Petit paysan) og Picassoráðgátan (Le Mystère Picasso). Þessar myndir eru sýndar í Amtsbókasafninu, Menntaskólanum á Akureyri, Háskólanum á Akureyri og í Listasafninu á Akureyri. Þá má geta þess að það voru frönskunemendur í MA sem völdu myndina Sjúklingar og munu kynna hana.
Dagskrá hátíðarinnar og sýningarstaðir má finna á vefnum www.visitakureyri.is.