Framlengja samstarf vegna reksturs KA/Þórs
Íþróttafélögin Þór og KA munu áfram reka handknattleikslið undir merkjum KA/Þór, þ.a. meistaraflokk og 2. Flokk. Skrifað var undir samsstarfssamning þess efnis í gær.
Samningurinn er að fyrirmynd rekstrarforms knattspyrnuliðs Þór/KA en samstarf félaganna í handboltanum má rekja aftur til ársins 2003. Með nýju rekstrarformi ætla menn sér að bæta alla umgjörð liðsins og þannig leggja sitt af mörkum við að halda liðinu áfram í fremstu röð.
Rekstur KA/Þórs mun samkvæmt samningnum vera á kennitölu óstofnaðs rekstrarfélags KA/Þór. Liðið mun spila áfram í sömu búningum sem er í hlutlausum litum líkt og gert hefur verið undanfarin ár.
Samningur þessi gildir frá og með undirritun til maí 2022. Um endurskoðun á samstarfinu segir í samningnum ,,Að tveimur keppnistímabilum liðnum skulu samningsaðilar skoða framlengingu á samningi þessum og skal sú skoðun eiga sér stað eigi síðar en í maí 2021".
KA/Þór sem leikur í Olís deildinni lauk keppni í vor í 5. sæti deildarinnar með 19 stig.
Undir samningana skrifuðu Ingi Björnsson formaður Þórs, Ingvar Már Gíslason formaður KA, Haddur Júlíus Stefánsson formaður handknattleiksdeildar KA og Þorvaldur Sigurðsson formaður handknattleiksdeildar Þórs