Framkvæmdir á flugstöð gætu hafist í vor

Líkan af væntanlegri flugstöð á Akureyrarflugvelli.
Líkan af væntanlegri flugstöð á Akureyrarflugvelli.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir mögulegt að framkvæmdir á viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli hefjist í vor. Eins og fjallað hefur verið um undanfarið ætlar KEA að bjóðast til að reisa viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli og leigja ríkinu en tillaga þess efnis hefur verið unnin ásamt Akureyrarbæ, SBA og Höldi.

Áætlanir KEA hafa óformlega verið kynntar samgönguráðherra og Isavia. Næstu skref snúa að því að ræða við samgönguyfirvöld og koma á samningi um byggingu og leigu flugstöðvar segir Halldór.

„Fyrirhugað er að stofna félag um framkvæmdina sem mun semja við verktaka og annað en slíkt félag fer ekki af stað í að semja við aðila með skuldbindandi hætti nema að hafa vissu fyrir því að fá leigjanda. Þannig að nú miðast öll vinnan að því að kynna verkefnið formlega fyrir eiganda flugvallarins og hefja samninga um framkvæmd og leigu. Það á ekki að þurfa að taka langan tíma ef raunverulegur hugur fylgir máli sem ég hef enga ástæðu til að efast um. Ég held að það ætti að geta gengið hratt fyrir sig ef menn fallast á þá nálgun sem við höfum á málið,“ segir Halldór.

Styður við áform um hótelbyggingu

KEA hefur undanfarin ár áformað að reisa 150 herbergja hótel við Hafnarstræti 80. Halldór segir það áfram vera áform félagsins að reisa hótel og væntanleg flugstöðvarbygging sem og önnur efling flugvallarins muni styðja við það verkefni eins og ferðaþjónustuna almennt á svæðinu.

„Bygging á flugstöð er eitt af þeim verkefnum sem styður við gistingu á svæðinu. Með því að tryggja aðstöðu fyrir millilandaumferð um Akureyrarflugvöll er verið að gagnast öllum í ferðaþjónustu og sömuleiðis íbúum á svæðinu.“

Nánar er fjallað um þetta í Vikudegi sem kom út í gær þar sem ítarlegt viðtal er við Halldór Jóhannsson.

Nýjast