Fjölgun um 57 íbúa á fyrri helmingi ársins

Íbúafjölgun á Akureyri hefur verið hæg undanfarin ár.
Íbúafjölgun á Akureyri hefur verið hæg undanfarin ár.

Íbúum á Akureyri fjölgaði um 57 á fyrri helmingi ársins 2019. Íbúar bæjarins þann 1. júlí sl. voru 18.957 en voru 18.900 þann 1. desember 2018. Þetta er hlutfallsleg fjölgun um 0,3% sem er töluvert undir landsmeðaltalinu sem er um 1%. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.

Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 1.161 á tímabilinu frá 1. desember 2018 til 1. júlí sl. Þetta er hlutfallsleg fjölgun upp á 0,9%. Þau sveitarfélög sem næst komu voru Kópavogur með 473 íbúa eða 1,3% fjölgun og Mosfellsbær með 377 íbúa eða 3,3% fjölgun. Þegar horft er til alls landsins þá fjölgaði íbúum Skagabyggðar hlutfallslega mest eða um 10,2%, um 9 eða úr 88 í 97 íbúa.

Lítilsháttar fjölgun hefur orðið í öllum landshlutum frá 1. desember sl. nema á Vestfjörðum þar sem fækkar um 9 manns. Hlutfallslega mest fjölgun varð á Suðurlandi, þar fjölgaði um 600 íbúa eða 2,0%. Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 2.396 eða 1,1% og íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 508 eða 1,9%.

Nýjast