Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík um helgina

Fjölmenni sækir Fiskidaginn mikla á Dalvík heim ár hvert. Hann verður haldinn nú um komandi helgi.
Fjölmenni sækir Fiskidaginn mikla á Dalvík heim ár hvert. Hann verður haldinn nú um komandi helgi.

Fiskidagurinn mikli verður haldinn á Dalvík um komandi helgi og verður að venju mikið um dýrðir.  Þetta er í nítjánda sinni sem hann er haldinn en frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fiski.  Allur matur á svæðinu sem og skemmtun er ókeypis.



Fiskisúpa í fimmtánda sinn

Föstudagskvöldið 9. ágúst verður Fiskisúpukvöldið en það er einstakt á sína vísu og er nú haldið í 15. sinn. Að venju eru fjöldinn allur af fjölskyldum sem tekur þátt. Súpukvöldið hefst kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni. Í tilefni afmælisins verða margir súpugestgjafar með myndasýningar frá fyrri súpukvöldum.

Skemmti og afþreyingar dagskráin á hátíðarsvæðinu stendur yfir á milli 10.30 og 17.00 og er fjölbreytt. Dagskráin hefst með því að þyrla Landhelgisgæslunnar sýnir listir sínar, en síðan tekur hver liðurinn á fætur öðrum við. Fiskasýning verður á svæðinu, boðið upp á andlitsmálun og hoppukastala, þyrluflug og sýndarveruleikavídeó svo eitthvað sér nefnt.

Matseðill Fiskidagsins 2019 er áhugaverður að vanda, Friðrik V. er yfirkokkur og  lagði línurnar að góðum matseðli ásamt sínu fólki. Þar má að sjálfsögðu finna gamla og góða rétti eins og síld og rúgbrauð, filsur sem eru fiskipylsur í brauði, harðfisk og íslenskt smjör, fersku rækjurnar og fiskborgarana.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja
Stórtónleikar verða að kvöldi Fiskidagsins og á meðal þeirra sem þar koma fram eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Þá má nefna Valdimar, Svölu Björgvins, Siggu og Grétar í Stjórninni, Auði, Pál Óskar, Herra Hnetusmjör, Bjartmar Guðlaugsson, Eyjólfur Kristjánsson, Þorgeir Ástvaldsson og fleiri. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða sem leikur undir og dansarar undir stjórn Birnu Björnsdóttur. Dagskráin endar með flugeldasýningu sem björgunarsveitin á Dalvík sér um.

 

Nýjast