Fimm ný sérfræðistörf á Akureyri
Ákveðið hefur verið að færa svörun erinda um innheimtu opinberra gjalda til samskiptasviðs ríkisskattstjóra á Akureyri. Ráðið verður í fimm störf á samskiptasvið ríkisskattstjóra í bænum til viðbótar við þau 24 störf sem fyrir eru.
„Þessi breyting er í anda stefnu stjórnvalda um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni,“ segir í fréttatilkynningu. Þann 1. maí sl. færðist innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu frá tollstjóra til embættis ríkisskattstjóra og hefur upplýsingagjöf verið á tveimur stöðum, í Tryggvagötu 19 í Reykjavík og á starfsstöð ríkisskattstjóra á Akureyri.
Samskiptasvið ríkisskattstjóra svarar fyrirspurnum um skatta og gjöld en með tilfærslu á svörun erinda um innheimtu opinberra gjalda mun ríkisskattstjóri efla þjónustu við viðskiptavini sína til muna. Með þessari hagræðingu geta viðskiptavinir fengið upplýsingar um skatta og gjöld ásamt innheimtu á þeim á einum stað. Afgreiðsla ríkisskattstjóra verður áfram starfrækt á Tryggvagötu 19 og Laugavegi 166.