13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Ferðafélag Akureyrar kom fyrir útsýnisskífu á Ytri-Súlu
„Við hjá Ferðafélagi Akureyrar trúum því að ferðafólk kunni að meta upplýsingarnar á útsýnisskífunni, því að eins og Tómas Guðmundsson skáld sagði: "Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt." Þetta segir Ingvar Teitsson hjá Ferðafélagi Akureyrar, en félagið hefur komið fyrir útsýnisskífu á Ytri-Súlu sem er í 1144 metra hæð yfir sjávarmáli. Á útsýnisskífunni eru alls 47 örnefni. Þá eru hæðir helstu fjalla sem sjást letraðar á skífuna, svo og fjarlægðin í viðkomandi fjöll.
Tæplega 1500 manns skrifuðu í gestabókina
Súlur eru bæjarfjall Akureyrar og þangað upp ganga margir sér til heilsubótar. Af Ytri-Súlu er mikið útsýni og sjást m.a. Herðubreið, Kverkfjöll og Kaldbakur, þegar skyggni er gott. Ferðafélag Akureyrar, FFA stikaði gönguleið upp á Súlur árið 1991 og hefur haldið leiðinni við æ síðan. Ingvar segir að félagar í FFA hafi meðal annars sett göngubrýr á tvö mýrasund á Súlugötunni og timburbrú á erfiðan læk á leiðinni. „Við hjá FFA töldum fjölda þeirra sem skrifuðu nöfn sín í gestabókina á Ytri-Súlu á 12 mánuða tímabili 2018-2019 og reyndust það vera alls 1.446 manns, þar af 46% útlendingar.“
Ingvar segir að snemma árs 2018 hafi gönguleiðanefnd FFA ákveðið að setja útsýnisskífu á Ytri-Súlu. Fóru félagar á tindinni um mitt sumar í kyrru veðri og heiðríkju. Á hringlaga blað voru teiknuð inn helstu fjöll og kennileiti sem þaðan sjást.
Skífan flutt upp á tind með vélsleða
Árni Ólafsson arkitekt setti frumdrögin á stafrænt form. Letrið var síðan greypt í messing-skífu í Logoflex í Reykjavík. Eftir það var skífan krómhúðuð. Smári Sigurðsson björgunarsveitaforingi og vélsleðamaður flutti skífuna og undirstöðu hennar á vélsleða upp á tind Ytri-Súlu dagana 13. og 14. apríl í vor. Þá var undirstaðan steypt niður og skífan sett upp þann 20. júli síðastliðinn. Og þá var loks hægt að víga útsýnisskífuna en það gerði bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir fyrr í þessum mánuði að viðstöddum níu manns frá FFA.