Félagslegt búsetuúrræði í Sandgerðisbót

Séð yfir Sandgerðisbót.
Séð yfir Sandgerðisbót.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að reisa fjögur lítil einbýlishús á Akureyri á svæði smábátahafnarinnar í Sandgerðisbót. Breytingin á deiliskipulagi Sandgerðisbótar felst í að bætt er við íbúðarhúsalóð á svæði þar sem húsið Byrgi stendur, en fyrirhugað er að rífa það hús.

Á lóðinni verður heimilt að byggja allt að fjögur lítil einbýlishús sem geta verið á bilinu 25-60 m² að stærð. Húsin fjögur eru hugsuð sem hluti af búsetuúrræðum Akureyrarbæjar og m.a. fyrir heimilislausa. Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar, segir að það hafi staðið til að auka fjölbreytni í búsetuúrræðum í bænum og að skipulagsyfirvöld hafi lengi haft augastað á svæðinu við Sandgerðisbót.

Mikil umræða var síðasta vetur eftir að Akureyrarbær fyrirhugaði að útfæra samskonar félagsleg búsetuúrræði í Hagahverfi en þær fyrirætlanirmættu hörðum viðbrögðum íbúa í hverfinu. Því var hætt við þær áætlanir. Áður hafði staðsetning smáhýsa við Norðurgötu á Oddeyrinni verið harðlega gagnrýnd þar sem staðurinn þótti ekki nægilega góður fyrir heimilislausa.

Tillagan nú sem gerir ráð fyrir allt að fjórum litlum einbýlishúsum við Sandgerðisbótina er að sögn Tryggva unnin í samvinnu skipulags- og velferðasviðs, „og í góðri pólitískri sátt, að undangenginni ítarlegri staðarvalsgreiningu þar sem mögulegar staðsetningar vítt og breytt um Akureyri voru skoðaðar og metnar. Niðurstaða þeirrar vinnu var einmitt sú að þessi staðsetning kæmi hvað best út,“ segir Tryggvi Már.

Nýjast