Er þetta satt?

Eins og bæjarbúar hafa tekið eftir skal reiturinn sunnan Bautans (svokallaður Drottningarbrautarreitur) gerður byggingarhæfur. Og gildir einu hvað ég eða aðrir tuða, því verður ekki breytt. Enda gott að hylja með því móti ljóta húsveggi, er okkur sagt, sem þarna blasa við þeim sem aka Drottningarbrautina. Í bígerð er að BSO-reiturinn, suður að Kaupvangsstræti, hljóti sömu örlög. Jón Hjaltason

Í brekkubænum Akureyri eru bílastæðin á Drottningarbrautar- og BSO-skikanum ákaflega mikilvæg miðbænum. Það er að minnsta kosti sannfæring mín. Að auki hefur mér sýnst BSO-reiturinn nýtilegur samkomustaður á tyllidögum.

Þeir fræðingar sem hafa miðbæinn á sinni könnu segja mér að anda ró­lega. Bílastæðum muni ekki fækka í miðbænum þótt byggt verði á títtnefndum reitum. Þvert á móti. Þeim mun fjölga, fullyrða þeir.

Lítum á Drottningarbrautarreitinn. Þar eru nú 200 almenn bílastæði en verða 219 þegar byggingarframkvæmdum lýkur, segir í deiliskipulagi. Já, þið lásuð rétt. Þegar öll húsin verða risin á þessu stóra bílaplani austan Hafnarstrætis mun stæðum þar hafa fjölgað úr 200 í 219, segja fræðingar, og eiga eingöngu við almennings bílastæði.

Ég dreg síðari töluna í efa. Þó skal þess getið að þegar ég rýni betur í skipulagshugmyndir yfirvalda sé ég ekki betur en að þau hyggist breikka skipulagsreitinn út á Drottningarbraut. Þannig á að verða til langt og mikið bílastæði undir húsvegg allra nýju íbúðarhúsanna og einnig við hótelið syðst. Nú skilst mér að Vegagerðin hafi áform um breikkun Drottningarbrautar til vesturs. Þetta virðist ekki ganga upp lengur, nema þá að langa bílastæðið hverfi? Eða að Vegagerðin kú­vendi og breikki götuna í austur, yfir nýja göngu- og hjólastíginn. Viljum við það?

Hér stefnir í töluvert óefni sem bæjarfulltrúar verða að svara fyrir. Kannski hef ég rangt fyrir mér en vonandi mun á það reyna áður en hlaupið verður til og öllu umbylt á BSO-reitnum  og Glerárgatan mjókkuð. En á því skipulagssvæði, sem nær reyndar yfir mun stærra svæði en bara bílaplanið austan Skipagötu, á bílastæðum einnig að fjölga: Fara úr 794 í 840, segir í deiliskipulagi miðbæjar. Engu að síður á að þekja BSO-torfuna með byggingum.  

Höfum hugfast að eitt meginmarkmið miðbæjarskipulags er að fá Akureyringa til að flytjast í miðbæinn í ríkari mæli en verið hefur. En er líklegt að það gerist? Munu bæjarbúar flykkjast í fjölbýlishúsin á Drottningarbrautarreitnum? Ég held ekki. Mikil umferð verður fast við austurhlið húsanna – eftir Drottningarbrautinni og á almenningsbílastæði sem þar verða undir húsvegg – orlofsíbúðakaupendur munu líta þau girndaraugum og öll bílastæði við húsin, sem ekki eru í bílakjallara, eru til almenningsnota. Mér er spurn, hversu hrifnir yrðu til dæmis íbúar blokkanna við Brekkugötu ef bílaplanið þeirra væri almennt notað af viðskiptavinum Glerártorgs?

Stærsta spurningin er þó; hvað verður um miðbæ Akureyrar ef á daginn kemur, þvert ofan í fullyrðingar fræðinga, að ökumenn eigi þar lítið skjól fyrir ökutæki sín?

Greinin birtist fyrst í Vikudegi.

-Vikudagur, 26. maí

 

Nýjast