Enn bjartsýnn á viðbyggingu flugstöðvar

Akureyrararflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrararflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Eins og frá var greint í vetur hefur KEA haft uppi áætlanir um að reisa viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli til að anna betur auknu millilandaflugi og leigja ríkinu. KEA hefur unnið að tillögu um viðbyggingu við flugstöðina ásamt SBA og Höldi.  Stjórnvöld hafa tekið jákvætt í erindið en þó hefur lítið þokast áfram í málinu.

Spurður um stöðu mála segir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA tillöguna þó enn upp á borðinu. „Við teljum að það sé ennþá meðbyr með málinu og við höfum ekki gefist upp. Þetta er hins vegar að taka lengri tíma en við og ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hefðum kosið. Megináhersla okkar var að lækka framkvæmdakostnaðinn og sérstaklega að flýta fyrir uppbyggingu, þar sem tíminn vinnur ekki með okkur varðandi millilandaflugið þar sem það er þegar hafið. En við metum það þannig að við höfum ennþá stuðning stjórnvalda við hugmyndina og reynum að þoka  henni áfram. Málið er því lifandi en veltur algjörlega á vilja stjórnvalda," segir Halldór.

Spurður hvort það séu vonbrigði að ekki hafi fengist afgerandi svör frá stjórnvöldum segir Halldór svo vera. „Í ljósi eðli tillögunnar, já þá eru það viss vonbrigði. Við viljum mæta þessu aðstöðuleysi á flugvellinum sem fyrst. En á móti hefur maður skilning á því að svona hlutir taka yfirleitt tíma í stjórnkerfinu. Ég er ennþá bjartsýnn um jákvæða niðurstöðu“ segir Halldór.

Nýjast