Engin lokapróf í húsakynnum framhaldsskólanna

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri.

Engin lokapróf verða haldin í húsakynnum MA og VMA í vor og taka nemendur prófin rafrænt. Þetta kemur fram á heimasíðum skólanna. Vegna kórónuveirunnar hefur kennslan í framhaldsskólunum farið að stórum hluta fram með fjarfundabúnaði frá miðjum mars. Þá er viðbúið að útskrift skólanna verði með breyttu sniði.

Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, segir á vef skólans að starfið hafi gengið vel á þessum óvenjulegum tímum. Nemendur og starfsfólk hafi reynt að finna bestu lausn á þeim verkefnum sem upp hafa komið.

Á vef VMA segir að það hafi síður en svo verið auðvelt að halda úti skólastarfi frá því að samkomubann var sett á enda séu námsbrautir skólans ólíkar. Benedikt Barðason, skólameistari VMA, segir á vef skólans að þetta hafi ekki verið auðveldur tími, ekki síst fyrir nemendur. Þeir hafi þó upp til hópa staðið sig með miklum ágætum og eigi mikið hrós skilið fyrir þrautseigju og úthald.

Nýjast