Eitt lítið atriði um reglur við kaup á skólamáltíðum-Má breyta smá?

Margrét Þóra Þórsdóttir.
Margrét Þóra Þórsdóttir.

Í gamla daga var það þannig hjá  Amtsbókasafninu á Akureyri að hver og einn notandi safnsins með gilt skírteini hafði heimild til að fá lánaðar fjórar bækur og hafa þær í mánuð mest. Stundum hef ég velt því fyrir mér af hverju fjórar bækur en ekki einhver önnur tala. Var búið að reikna út að meðalmaðurinn árið 1965 læsi eina bók á viku. Og þá eins gott að hafa fyrir honum vit og láta hann ekki rogast heim til sín með bækur sem aldrei yrðu lesnar. Eða var einhver allt önnur skýring?

Formáli þessi er hafður á af því að í okkar ágæta bæjarfélagi er í gildi ein svona svona tilskipun, regla eða eitthvað sem er til þess fallin að furða sig á.

Tvívegis hef ég óskað eftir skýringu en í hvorugt skiptið haft erindi sem erfiði, ekkert svar hefur borist. Nú freista ég þess í þriðja sinn að kreista út svar með þessu greinakorni hér í Vikudegi, fyrir allra augum.

Akureyrarbær stendur fyrir umfangsmikilli matsölu í hádeginu alla virka daga með rekstri mötuneyta í leik- og grunnskólum bæjarins. Fyrirkomulag matsölunnar í grunnskólunum er með þeim hætti að hægt er að vera áskrifandi og kaupa allar mátíðir sem í boði eru en einnig er hægt að kaupa stakar máltíðir. Vilji menn kaupa staka máltíð, þá er hún aldeils ekki stök þannig séð, þær verður að kaupa 10 saman í kippu. Það má kaupa fleiri en ekki færri. Og það verður að nýta þessar 10 stöku máltíðir innan sama mánaðar.

Auðvitað er mjög algengt að bjóða upp á 10 af þessu og 10 af hinu. Nærtækt dæmi er 10 miða kort í sundlaugar bæjarins. Hvað þau varðar er  ekki niðurnjörvað að nota verði allt kortið innan mánaðar. Og því er spurt;  Ef ekki er hægt að bjóða kaupendum að velja hversu margar máltíðir þeir kjósa að kaupa í hverjum mánuði, er þá möguleiki að setja upp sama fyrirkomulagi og í sundlaugunum. Selja 10 máltíðir saman í einhvers konar korti og amast ekki við því þó farið sé yfir mánaðamót.

Þessi spurning er ekki sett fram að ástæðulausu. Hér í bæ eru börn sem kjósa að borða hvorki kjöt né fisk. Ef til vill full hastarlegt að segja að þeim sé úthýst úr skólamötuneytum, en alveg ljóst að þau finna ekki 10 máltíðir við hæfi innan mánaðarins.  Nær lagi að þær séu 5 eða 6.

Hér er ekki verið að viðra skoðanir á því hvort betra er fyrir börn og umhverfi að borða langtaðkomna baunastöppu eða kjöt af búpeningi sem valsað hefur um eyfirskar grundir. Bara að grænmetisbörnin geti verið með þegar það hentar þeim.

Í annarri grein gæti svo verið upplagt að spyrja um verðið á stöku máltíðunum. Sem heldur betur snarhækkar frá áskriftarverðinu, eða um heil 26%.  Úr 446 krónum upp í 599 krónur. Vissulega er sá háttur jafnan hafður á í viðskiptum að bjóða afsláttarkjör. Því meira sem keypt er því lægra er verðið. Allir sáttir við það. En er þarna ekki fullmikið í lagt?

-Margrét Þóra Þórsdóttir. Höfundur er blaðamaður og amma grunnskóladrengs sem frekar vill borða gulrót en gúllasbita.

Nýjast