13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Einn í haldi vegna eldsvoða
Einn er í haldi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eftir að eldur kom upp í húsi í Sandgerðisbótinni á Akureyri um hálftvö í nótt. Að sögn Jónasar Halldórs Sigurðssonar rannsóknarlögreglumanns var hann handtekinn í nótt og bíður yfirheyrslu. Að öðru leyti geti lögreglan ekki tjáð sig um málið. Þetta kemur fram á mbl.is.
Íbúi á jarðhæðinni, þar sem eldurinn kom upp, var nýfarinn að heiman þegar nágrannar hans á efri hæðinni, karl og kona, urðu eldsins vör og tilkynntu til Neyðarlínu. Þau komust út úr húsinu af sjálfsdáðum og hvorugt þeirra slasaðist í eldsvoðanum, að sögn Jónasar.
Um gamalt hús í eigu bæjarins er að ræða en það var byggt árið 1898, segir á vef mbl.is.