Dregið úr viðbúnaði á SAk vegna kórónuveirunnar

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Dregið verður úr þeim viðbúnaði sem verið hefur á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) vegna kórónuveirunnar en þó með þeim hætti að sjúkrahúsið verði áfram í stakk búið að taka við og sinna Covid-19 sjúklingum á upptökusvæði sínu og eftir aðstæðum annars staðar. Þetta kemur fram í pistili Bjarna Jónassonar forstjóra SAk á vef sjúkrahússins. Enginn er nú inniliggjandi á SAk með Covid-19.

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri var líkt og á LSH virkjuð viðbragðsáætlun sem gerði ráð fyrir mun stærri faraldri en raun varð á. Með því móti var hægt að sinna þeim verkefnum sem að SAk sneru. Sett var upp sérstök legudeild og mönnuð heilbrigðisstarfsfólki ásamt því að sérstakar vaktlínur sérfræðinga og unglækna voru stofnaðar. Þá var einnig opnuð sérstök göngudeild fyrir Covid-19  smitaða.

Frá og með 4. maí verður hafist handa við að koma dag- og göngudeildarstarfsemi og valkvæðum aðgerðum í eðlilegt horf. Það mun gerast í áföngum og í samræmi við gildandi reglur um smitgát.

Bjarni segir í pistlinum það vera ljóst að Covid-19 faraldurinn sem geisað hefur á Íslandi sl. vikur sé í rénun og smit í samfélaginu aðeins brot af því sem var.

„Þá hafa smit á Norður- og Austurlandi verið hlutfallslega fá. Þó má gera má ráð fyrir að upp geti komið einstaka smit eða bylgja faraldursins á næstu misserum,“ segir Bjarni.

 

Nýjast