Bjartsýnn á að N1-mótið í fóbolta verði í sumar

N1-mótið er eitt stærsta mót ársins í knattspyrnu.
N1-mótið er eitt stærsta mót ársins í knattspyrnu.

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir að ef svo færi að það þyrfti að fresta N1-mótinu í knattspyrnu yrði það gríðarlegt högg fyrir KA og allt samfélagið á Akureyri. N1 mótið er einn stærsti og vinsælasti íþróttaviðburður ársins hérlendis. Rétt tæplega 2.000 drengir voru skráðir á mótið í fyrra sem var metþátttaka.

Eins og fram hefur komið er líklegt að takamarkanir verði á mannamótum í sumar vegna kórónuveirunnar eins og á bæjarhátíðum og íþróttamótum. Mun mannfjöldinn miðast við 2.000 manns. „N1-mótið og sú ferðamennska sem því fylgir er orðin fjölmennasta ferðavika ársins hér á Akureyri og gríðarlega tekjumikil fyrir veitinga og gistigeirann hér í bæ,“ segir Sævar. Hann segist bjartsýnn á að mótið fari fram. „Við erum vongóðir um mótið fari fram í sumar og sem samfélag þurfum á því að halda að hlakka til einhvers,“ segir Sævar.

Stefnt á að halda Goðamótin

Jón Stefán Jónsson, íþróttafulltrúi Þórs, segir að Þór stefni á að halda Goðamótin tvö í knattspyrnu í júlí og ágúst eins og til hefur staðið. „Fjöldinn á okkar mótum er nær helmingi minni en á þessum stærri fótboltamótunum. Svo við stefnum ótrauðir á að halda mótin með viðeigandi ráðstöfunum ef yfirvöld segja það leyfilegt,“ segir Jón Stefán.

Bíladagar líklega í óbreyttri mynd

Þá verða Bíla­dag­ar á Ak­ur­eyri lík­lega haldn­ir í nán­ast óbreyttri mynd í júní að óbreyttu eftir því sem fram kemur á mbl.is. Þar segir að 2.000 manna fjölda­tak­mörk­un muni ekki koma í veg fyr­ir að Bíladaga að sögn Ein­ars Gunn­laugs­son­ar for­manns Bíla­klúbbs Ak­ur­eyr­ar. Bíladagar fara fram um miðjan júní ár hvert. „Ef þetta er niðurstaðan, að það verði 2.000 manna tak­mark, þá get­um við haldið hátíðina,“ sagði Einar í samtali við mbl.is.

 

Nýjast