13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Bjartsýnn á að N1-mótið í fóbolta verði í sumar
Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir að ef svo færi að það þyrfti að fresta N1-mótinu í knattspyrnu yrði það gríðarlegt högg fyrir KA og allt samfélagið á Akureyri. N1 mótið er einn stærsti og vinsælasti íþróttaviðburður ársins hérlendis. Rétt tæplega 2.000 drengir voru skráðir á mótið í fyrra sem var metþátttaka.
Eins og fram hefur komið er líklegt að takamarkanir verði á mannamótum í sumar vegna kórónuveirunnar eins og á bæjarhátíðum og íþróttamótum. Mun mannfjöldinn miðast við 2.000 manns. „N1-mótið og sú ferðamennska sem því fylgir er orðin fjölmennasta ferðavika ársins hér á Akureyri og gríðarlega tekjumikil fyrir veitinga og gistigeirann hér í bæ,“ segir Sævar. Hann segist bjartsýnn á að mótið fari fram. „Við erum vongóðir um mótið fari fram í sumar og sem samfélag þurfum á því að halda að hlakka til einhvers,“ segir Sævar.
Stefnt á að halda Goðamótin
Jón Stefán Jónsson, íþróttafulltrúi Þórs, segir að Þór stefni á að halda Goðamótin tvö í knattspyrnu í júlí og ágúst eins og til hefur staðið. „Fjöldinn á okkar mótum er nær helmingi minni en á þessum stærri fótboltamótunum. Svo við stefnum ótrauðir á að halda mótin með viðeigandi ráðstöfunum ef yfirvöld segja það leyfilegt,“ segir Jón Stefán.
Bíladagar líklega í óbreyttri mynd
Þá verða Bíladagar á Akureyri líklega haldnir í nánast óbreyttri mynd í júní að óbreyttu eftir því sem fram kemur á mbl.is. Þar segir að 2.000 manna fjöldatakmörkun muni ekki koma í veg fyrir að Bíladaga að sögn Einars Gunnlaugssonar formanns Bílaklúbbs Akureyrar. Bíladagar fara fram um miðjan júní ár hvert. „Ef þetta er niðurstaðan, að það verði 2.000 manna takmark, þá getum við haldið hátíðina,“ sagði Einar í samtali við mbl.is.