20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bjartsýn á að miðstöð fyrir þolendur opni á árinu
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, er bjartsýn á að miðstöð fyrir þolendur ofbeldis verði opnuð á Akureyri á þessu ári. Undirbúningur hefur gengið vel og er verið að leggja lokahönd á fjármögnun. Þetta kom fram í viðtali við Höllu Bergþóru á Morgunvaktinni á Rás 1 í gærmorgun og greint var frá á Rúv.
Hugmyndir um þolendamiðstöð á Akureyri voru kynntar á síðasta ári og er átaksverkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra í þágu þolenda. Fyrirmyndin er Bjarkarhlíð, sem tók til starfa í Reykjavík fyrir tveimur árum. Halla segir að viðræður um þolendamiðstöð á Akureyri hafi gengið vel og telur góðar líkur á að hún verði að veruleika.
„Ég er mjög bjartsýn á að það gerist og á þessu ári,“ segir Halla. „Allir samstarfsaðilar eru tilbúnir. Þetta er spurning um að fjármagna þetta og það er að miklu leyti komið og ég vona að það gangi eftir núna á þessu ári,“ segir Halla. Stefnt sé að því að fjármögnun verði í höndum dómsmálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins.