Beint flug frá Hollandi til Akureyrar
Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur nú hafið sölu á skipulögðum ferðum til Akureyrar með leiguflugi frá Hollandi. Ferðaskrifstofan áætlar að fljúga með ferðamenn yfir tvö tímabil á næsta ári, annars vegar yfir næsta sumar og hins vegar næsta vetur frá desember fram í mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.
„Það er ánægjulegt að geta tilkynnt um þetta, því hér er afrakstur vinnu síðustu ára að koma í ljós. Það er ljóst að beint millilandaflug á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar hefur haft jákvæð áhrif á þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og vakið athygli fleiri ferðaskrifstofa og flugfélaga á áfangastaðnum,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N.
Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn Air 66N hafa leitt verkefnið og nú standa yfir viðræður við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við ferðaskrifstofuna og þjónustu við farþega. Ljóst er að slíkar ferðir kalla á ýmis konar þjónustu, eins og komið hefur í ljós með ferðum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Áhersla ferðaskrifstofunnar verður bæði á ferðalög þar sem ferðamenn keyra sjálfir á milli staða og hópaferðalög með fararstjóra. Sú fjölbreytni þýðir betri dreifingu þessara gesta um allt Norðurland, allt frá Hvammstanga til Langaness.
Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með 30 ára reynslu af ferðum fyrir Hollendinga á norðlægar slóðir, þ.á.m. til Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.