Barnahús opnar útibú á Norðurlandi
Barnahús á Norðurlandi er fyrsta útibúið frá Barnahúsi í Reykjavík og var formlega opnað á Akureyri í dag. Opnun útibúsins felur í sér að til staðar verður sérútbúin aðstaða fyrir börn sem fá meðferðarviðtöl frá Barnahúsi. Einnig hefur verið útbúin sérstök aðstaða með nýjustu tækni þar sem hægt verður að taka rannsóknarviðtöl við börn, bæði á vegum barnaverndarnefnda og dómstóla.
Útibúið er opnað í samvinnu við Lögregluna á Norðurlandi eystra, barnaverndarnefnd Eyjafjarðar og dómstólasýsluna og mun útibúið geta veitt börnum af öllu Norðurlandi þjónustu, og börnum sem búsett eru annars staðar, teljist það þjóna hagsmunum viðkomandi barna. Barnahús hefur verið starfrækt í Reykjavík frá árinu 1998 með það að markmiði að hagsmunir barns séu tryggðir þegar upp kemur grunur um kynferðisbrot. Hugmyndin er að sérfræðingarnir komi til barnsins en ekki öfugt og er verið að taka þá hugmynd skrefinu lengra í útibúinu á Norðurlandi, segir í tilkynningu.
Hingað til hafa þeir sem annast meðferð ferðast um landið en nú er komin aðstaða til að veita börnum á Norðurlandi hana á staðnum. „Það býður upp á að hægt sé að hafa ýmsan æskilegan búnað við höndina, sem ekki er hægt þegar starfsfólk er á ferð og flugi, og ætti það að leiða til betri þjónustu,“ segir ennfremur á vef Stjórnaráðssins en vonir standa til að sambærileg útibú geti starfað í öllum landsfjórðungum.