Bakþankar bæjarfulltrúa Að skipta um skoðun
Hafið smá þolinmæði með mér. Mig langar til að byrja á lítilli sögu af þeim skáldbræðrum og vinum, skáldinu á Sandi, Guðmundi Friðjónssyni, og þjóðskáldinu, Matthíasi Jochumssyni. Eitt sinn sem oftar leit Guðmundur við hjá vini sínum á Sigurhæðum. Þeir höfðu um margt að spjalla, báðir skrafhreifnir og áhugasamir um menn og málefni. Loks kemur þó að kveðjustund og þar sem þeir eru komnir út á tröppu spyr Guðmundur skyndilega: „Geturðu sagt mér, Sigurhæðabúi, hvernig ég muni geta haldið mér andlega ungum til æviloka?“
Matthías svaraði samstundis: „Það get ég sagt þér, minn elskulegi, með því að skipta oft um skoðun.“
Og nú hef ég skipt um skoðun. Í kosningabaráttunni var ekki laust við að ég hneykslaðist á nýlega upptekinni gjaldtöku vegna bílastæða. Jamm, ég átti bara ekki til orð yfir þessum enn eina skattinum sem væri lagður á okkur borgarana. Og svo fjárans tæknibrellan sem fylgdi með. Borga með smáforriti og til að bæta gráu ofan á svart áttu einhverjir gæjar í Reykjavík eða jafnvel úti í hinum stóra heimi að taka svo og svo stóra sneið af skattinum.
Ég skal sko berjast með kjafti og klóm gegn þessari áníðslu, minnir mig að ég hafi sagt - vona þó ekki. Því að þá hef ég gengið á bak orða minna. Það runnu nefnilega á mig tvær grímur þegar ég fór að vasast í málum – og hugsa. Stæðin kosta peninga. Eiga allir skattgreiðendur að taka jafnan þátt í þeim kostnaði eða aðeins þeir sem nota, spurði ég sjálfan mig. Ég var á báðum áttum, líka vegna þessara gæja sem taka upp undir hundrað kall af hverju stöðumælagjaldi. En eiga þeir ekki líka að fá eitthvað fyrir sinn snúð, rökræddi ég við sjálfan mig. Enn tvístígandi.
En viti menn, svo varð barbabrella sem fáa óraði fyrir. Nú getum við nefnilega greitt beint til Akureyrarbæjar þegar við leggjum bílunum okkar á gjaldstæði. Sláum inn hjá gúgúl frænda, akureyri.is, biðjum um bifreiðastæðasjóð. Þá kemur á skjáinn blár borði; Sjá nánari upplýsingar. Við smellum þar og þá birtist á skjánum: Greiða fyrir gjaldskyld stæði - og þá er bara að hlýða.
Og ég segi það satt, að úr því að sá tæknifatlaði maður sem ég er getur klórað sig fram úr þessu þá geta það bókstaflega talað allir. En kannski hef ég hef það umfram marga aðra að hafa skipt um skoðun sem ríður ef til vill baggamuninn hér.
Jón Hjaltason, óháður