Bæjaryfirvöld greiði fargjöld í einn mánuð í Hríseyjarferjuna
Í bréfi Ferðamálafélags Hríseyjar og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustum í Hrísey til bæjaryfirvalda á Akureyri kemur fram að rekstaraðilar í ferðaþjónustu í Hrísey hafi miklar áhyggjur af komandi sumri. Í bréfinu segir að í Hrísey sé hafin vinna við að búa til skemmtilegar pakkaferðir til eyjunnar með góðum afsláttum fyrir fólk sem kýs að nota ferðaávísun, sem ríkisstjórnin ætlar að gefa út.
Jafnframt segir:
„Til að styðja við þetta átak okkar og renna stykari stoðum undir atvinnulífið í eyjunni, förum við þess á leit við Akureyrarbæ að hann styrki okkur með því að greiða fargjöld í Hríseyjarferjuna fyrir alla í einn mánuð í sumar. Slík ráðstöfun myndi skila miklu til eyjarinnar og yrði gott markaðsátak sem hægt væri að ráðast í vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Við erum þess fullviss að margir íbúar á Norðurlandi sem ekki hafa komið í Hrísey myndu nýta sér þetta tilboð og einnig aðrir landsmenn.“
Hverfisráð styður erindið heilshugar og vísar því áfram til bæjarráðs.