Bæjaryfirvöld gera ráðstafanir vegna Covid-19 veirunnar

Launadeild bæjarins í Ráðhúsi hefur verið lokað tímabundið fyrir gestum og gangandi.
Launadeild bæjarins í Ráðhúsi hefur verið lokað tímabundið fyrir gestum og gangandi.

Akureyrarbær hefur gripið til nokkurra ráðstafana til að bregðast við COVID-19 faraldrinum. Er þetta einungis gert í varúðarskyni, enda þótt ekkert smit hafi enn verið staðfest á Akureyri er mikilvægt að hafa varann á og standa vörð um mikilvæga starfsemi og þjónustu bæjarins, einkum við fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu bæjarins.

Þar segir að stjórnendur bæjarins vinni nú að uppfærslu á viðbragðsáætlunum í samráði við almannavarnir og landlækni. Fylgst er vel með öllum nýjustu tíðindum og ábendingum sérfræðinga og er staðan, eins og hún blasir við sveitarfélaginu, metin daglega.

Líkt og tilkynnt var um helgina eru Öldrunarheimili Akureyrar lokuð fyrir heimsóknum gesta þar til annað hefur verið tilkynnt. Var þetta ákveðið að höfðu samráði við sóttvarnalækni og landlækni eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir.

„Nú hefur einnig verið ákveðið að loka tímabundið launadeildinni í Ráðhúsi fyrir gestum og gangandi. Er þetta gert til að tryggja öryggi starfsfólks og koma í veg fyrir röskun á þessari mikilvægu starfsemi sveitarfélagsins. Þá hefur einnig verið ákveðið að loka skrifstofum búsetusviðs, Glerárgötu 26, og vernda þannig viðkvæma hópa sem sviðið veitir þjónustu.“

Þeir sem þurfa að ná sambandi við hjúkrunar- og dvalarheimilin, launadeild eða búsetusvið eru beðnir um að hafa samband með tölvupósti eða í gegnum síma.

Nýjast