Auka þarf úrræði fyrir börn frá brotnum heimilum
Brýnt er að koma upp sérstöku fjölskylduheimili á Akureyri fyrir börn sem koma frá brotnum heimilum. Barnaverndarmálum er að fjölga og þau eru orðin þyngri en áður. Þetta segir Vilborg Þórarinsdóttir forstöðumaður barnaverndar á Akureyri.
Á fundi velferðarráðs Akureyrarbæjar nýverið voru kynntar tillögur um fjölskylduheimili. Þar kom fram að fjölskylduheimili myndi minnka þörf fyrir vistun barna utan heimilis. Í fjölskylduheimili yrði unnið með viðkvæmar fjölskyldur þar sem foreldrar þurfa verulegan stuðning í foreldrahlutverkinu. Fram kom að um lögbundið úrræði er að ræða, þörfin mikil og forvarnargildið ótvírætt.
„Þetta yrði viðbót við þau úrræði sem eru í boði og nýtt í flórunni hér á Akureyri en samskonar heimili er í Reykjavík. Fyrst og fremst er þetta úrræði í þyngri barnaverndarmálum þar sem Barnavernd þarf að hafa afskipti af heimilum,“ segir Vilborg í samtali við Vikudag. „Mál tengt börnum eru að verða þyngri en áður og vandinn flóknari. Við erum líka að hugsa þetta þannig að með því að vera með fjölskylduheimili geta foreldrar verið nær börnunum sínum. Ein hugmyndin er sú að annars vegar verði þetta vistun barna þar sem foreldrar koma á vökutíma og hins vegar yrði íbúð inn á heimlinu þar sem foreldrar búa með börnunum. Með því opnast tækifæri fyrir markvissari kennslu og greiningu.“
Alvarlegum málum fjölgað
Eins og fram kom í frétt í blaðinu í sumar hefur barnaverndartilkynningum á Akureyri fjölgaði um 78 á milli ára og þar áður fjölgaði tilkynningum um 66. Þetta er rétt yfir 15% fjölgun. Á árinu 2017 var tekið við 594 barnaverndartilkynningum og hafin var könnun að eigin frumkvæði í 16 málum. Málefni 304 barna voru til könnunar og meðferðar á árinu auk málefna sex ófæddra barna. Í árskýrslu Akureyrarbæjar segir að fjölgun barnaverndartilkynninga veki athygli en þess hefur raunin verið frá árinu 2014. Þá kemur fram að á árinu 2017 var áberandi mikil fjölgun tilkynninga um vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit og stærsti liður þar er vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu foreldra. Á árinu 2017 bárust 315 tilkynningar vegna vanrækslu á móti 197 tilkynningum af sömu ástæðu árið 2016.
Fjórar fjölskyldur í einu gætu nýtt sér úrræðið
Vilborg segir að áætluð þörf séu að 2-4 börn í einu myndu nýta sér aðstöðuna á fjölskylduheimilinu. „Við erum að hugsa um 2-3 rými í greiningarvistun og eitt rými í fjölskylduíbúð. Þetta væru því um fjórar fjölskyldur í einu sem myndu nýta sér úrræðið.“ Vilborg segir úrræðið dýrt en leggur áherslu á þörfin sé mikil. „Þetta myndi veita betri og faglegri þjónustu í þessum málum í bæjarfélaginu og er eitt af því sem við þurfum að koma í gagnið til að styðja við fjölskyldur sem þurfa á þessu að halda,“ segir Vilborg. Velferðarráð hefur vísað málinu til bæjarráðs og leggur til að málið fái framgang í fjárhagsáætlun næsta árs.