13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Auglýsa eftir nýjum aðila til að reisa hótel
Akureyrarbær mun auglýsa lóðina við Hafnarstræti 80 að nýju með það fyrir augum að reist verði hótel á reitnum. Þetta segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar í samtali við Vikudag. Eins og greint var frá í blaðinu fyrir skemmstu hefur KEA skilað lóðinni við Hafnarstræti 80 til bæjaryfirvalda og því verður ekki af byggingu hótels á lóðinni af hálfu félagsins. KEA hefur undanfarin ár áformað að reisa og leigja 150 herbergja hótel við Hafnarstræti 80 eða á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð.
Mikið í mun að hefja framkvæmdi á lóðinni
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, sagði í samtali við blaðið að ekki hafi skapast skilyrði fyrir því að áform félagsins á lóðinni gangi eftir eins og lagt var upp með. Guðmundur Baldvin segir að bæjaryfirvöldum á Akureyri sé mikið í mun að framkvæmdir á þessari lóð sem og á miðbæjarsvæðinu öllu hefjist sem fyrst og ætla sér að setja sérstakan kraft í þá vinnu á þessu ári. „Við erum nýbúinn að stofna vinnuhóp um miðbæjarsvæðið til að ýta verkefnum af stað. Varðandi lóðina við Hafnarstræti, þá ætlum við að auglýsa hana og sjá hvort það sé aðili þarna úti sem vill byggja hótel. Ef það er ekki áhugi fyrir lóðinni þá þarf að bregðast við því,“ segir Guðmundur Baldvin.
Segir KEA hafa fengið ítrekaðan frest
Halldór Jóhannsson sagði í viðtali í blaðinu að það væru mikil vonbrigði fyrir KEA að skila lóðinni og að ekki væri skilningur á því hjá bæjaryfirvöldum að bíða með verkefnið vegna erfiðra ytri skilyrða. KEA hafi eytt miklum tíma og fjármunum í undirbúning þessa verkefnis. Guðmundur Baldvin segir að KEA hafi ítrekað verið veittur frestur til framkvæmda. „Síðast var KEA veittur frestur á fundi skipulagsráðs þann 13. mars 2019 og þá til 1. maí 2019. Lóðin var síðan ekki tekin formlega tilbaka fyrr en undir lok árs 2019 eða um tveimur árum eftir að hún var byggingarhæf. Það var ekkert sem benti til þess að félagið myndi hefja framkvæmdir og þótti þá rétt að taka lóðina til baka og fela sviðstjóra skipulagssviðs að auglýsa hana aftur.“
„Kjörin staður fyrir hótel“
Guðmundur Baldvin segir ennfremur að hann sé bjartsýnn á að hótel muni á endanum rísa á lóðinni við Hafnarstræti. „Þetta er kjörin staður fyrir hótel og ég reikna með að við munum auglýsa þetta sem allra fyrst. Svo þurfum að bíða og sjá hvað verður.“