Átta einstaklingar hafa lagst inn á Covid-deildina á SAk

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Alls hafa átta manns lagst inn á Covid-legudeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) vegna gruns um smit á kórónuveirunni frá því deildin var sett á laggirnar fyrir nokkrum vikum. Þá hafa þrír einstaklingar legið inn á gjörgæsludeild Sjúkrahússins.

Þegar þetta er skrifað er einn inniliggjandi á Covid-legudeildinni og einn á gjörgæsludeildinni, en sá er ekki í öndunarvél. Enginn hefur látist úr Covid-19 á Sjúkrahúsinu á Akureyri, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Smitum á landsvísu af Covid-19 veirunni hefur farið mjög fækkandi undanfarna daga. Þá hafa fá smit greinst á Norðurlandi eystra frá því um Páska. Nú eru 47 smitaðir á svæðinu, langflestir á Akureyri og 84 í sóttkví. Fjöldi fólks í sóttkví hefur farið hratt niður á við undanfarnar vikur.

Nýjast