Átak í að laða fleiri gesti og sýningum verði fækkað

Listasafnið á Akureyri.
Listasafnið á Akureyri.

Endurskoðuð áætlun stjórnenda gerir ráð fyrir um 19 milljónum króna framúrkeyrslu Listasafnsins á Akureyri. Tekjur vegna leigu af rými fyrir kaffihús og gestavinnustofur skiluðu sér ekki.

Rekstur kaffihússins gekk illa og stóð ekki undir leigugreiðslum en þrátt fyrir þá staðreynd verða það að teljast mistök að hálfu safnstjóra að leiga var ekki innheimt. Tap á rekstri kaffihússins þessa þrjá mánuði sem Listasafnið rak það í sumar er ekki til að laga ástandið. Þetta kemur fram í rekstrarúttekt á Listasafni Akureyrar sem unnin var að beiðni bæjaryfirvalda.

Eins og áður hefur verið fjallað um stefnir í verulegt tap á rekstri safnsins á árinu. Í úttektinni eru samandregnar ástæður framúrkeyrslu 2019 í stórum dráttum: „Tekjur skiluðu sér ekki og m.a. vegna þess að ekki hefur tekist að klára framkvæmdir til að koma húsnæði í leigu sbr. Ketilhúsið og gestavinnustofur. Tekjur af leigu rýmis fyrir kaffihús voru engar, tap var af rekstri kaffihúss yfir sumartímann og verulegar vanáætlanir og/eða of mikill kostnaður í tengslum við sýningarhald. Þá var skortur á yfirsýn stjórnenda á rekstri safnsins. Listasafnið mun ekki með nokkru móti standast fjárhagsáætlun 2019,“ segir í úttektinni.

Ýmsar tillögur til hagræðingar

Nokkrar tillögur eru nefndar til hagræðinga á Listasafninu. Meðal annars að þegar það fæst nýr rekstraraðili að kaffihúsinu skal skoðað vel að í samningi verði rekstraraðila falið að sjá um að manna móttökuna fyrir Listasafnið. Yfir vetrartímann ætti að vera hægt að ná hagræðingu í starfsmannahaldi með því móti. Gefin verði meiri tími á milli sýninga í hverju sýningarrými til að starfsmenn safnsins geti sinnt uppsetningu og niðurtöku á sýningum þannig að sem minnst þurfi að kaupa utanaðkomandi verktaka í þau verk. Hætt verði að veita áfengi endurgjaldslaust við opnanir, hætt verði að senda út prentuð boðskort á opnanir sýninga heldur eingöngu sent út á netinu, skoðað verði að vera með sýningarbækling eingöngu á rafrænu formi eða minnka og fækka verulega prentuðum eintökum.

Þá eru sýningarrými mjög mörg og þeirri spurningu velt upp hvort endurskoða eigi það fyrirkomulag. Þá þurfi að gera átak í markaðsetningu á Listasafninu til að laða að fleiri gesti. Einnig þurfi safnstjóri að hafa mun meira samráð við deildarstjóra Akureyrarstofu og eftir atvikum sviðsstjóra og auka þarf stuðning við stjórnendur er varðar fjárhagsáætlunargerð. Sýningaáætlun 2020 verði strax tekin til endurskoðunar og sýningum fækkað.

Viðauki uppá rúmar 4 milljónir

Í bókun stjórnar Akureyrarstofu segir að í úttektinni komi skýrt fram hvað hafi farið úrskeiðis. Stjórnin leggur áherslu á að upplýsingagjöf stjórnenda til stjórnar verði bætt til muna, samráð aukið, að fjárhagsáætlun sé fylgt í hvívetna og farið sé eftir réttum verklagsreglum vegna fjárhagslegra frávika. Þá hefur Stjórn Akureyrarstofu samþykkt að óska eftir því við bæjarráð að veittur verði viðauki við fjárhagsáætlun Listasafnsins að upphæð kr. 4.200.000 til að koma til móts við vanreiknaða innri leigu.

 

Nýjast