Alþjóðlegur dagur læsis haldin hátíðlegur á morgun

Amtbókasafnið.
Amtbókasafnið.

Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár taka Íslendingar þátt í þessum alþjóðlega degi í tíunda skipti. Miðstöð skólaþróunar við HA, Bókasafn HA, Amtsbókasafnið, Barnabókasetur og fræðslusvið Akureyarbæjar hafa starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins.

Í tilefni af alþjóðlegum degi læsis hafa verið sett upp þrjú útibókasöfn á Akureyri. Bókasöfnin voru hönnuð og smíðuð af ungmennum í vinnuskóla Akureyrarbæjar í sumar undir stjórn Brynhildar Kristinsdóttur, smíðakennara.

Í bókasöfnunum verða barnabækur sem gestir og gangandi geta notið á ferð sinni um bæinn en útibókasöfnin verða staðsett í miðbænum, Lystigarðinum og Boganum. Skáparnir eru ólíkir, ævintýralegir og allir með einhverjum hætti tengdir sögum og bókum. Skáparnir hafa verið nefndir Skógarstræti, Múmínstræti og Disneystræti. Það má taka bækur úr bókasöfnunum, skoða þær og skila aftur en það má einnig taka bækur með heim og eiga þær. Þá má gefa vel með farnar bækur í skápana sem þar með fá nýtt líf.

Verkefnið minnir á mikilvægi læsis, eykur aðgengi að bókum og hvetur til samveru fjölskyldunnar á útisvæðum bæjarins, einnig stuðlar það að sjálfbærni og umhverfisvernd þar sem notaðar bækur og endurvinnanlegur efniviður er lagður til grundvallar, segir í fréttatilkynningu.

Bókasöfnin verða vígð við Amarohúsið í miðbænum í morgun, sunnudaginn 8. september kl. 16.00. 

Nýjast