Alþjóðlegt skákmót í Hofi

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, setti mótið og lék fyrsta leikinn fyrir stigahæsta m…
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, setti mótið og lék fyrsta leikinn fyrir stigahæsta mann mótsins, hollenska stórmeistarann Ivan Sokolov. Mynd/Sigurður Arnarson

Þegar fimm umferðum af níu er lokið á afmælismóti Skákfélags Akureyrar, Icelandic Open, hefur hollenski stórmeistarinn Ivan Sokolov unnið allar sínar skákir og þar með tekið forystuna á mótinu. Fast í kjölfar hans fylgir Ísfirðingurinn Guðmundur Gíslason með fjóra og hálfan vinning.

Guðmundur hefur þegar lagt tvo stórmeistara að velli og stendur nú vel að vígi í þeirri baráttu sem stendur milli íslensku keppendanna um titil Skákmeistara Íslands. Næstir honum með fjóra vinninga koma stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Þröstur Þórhallsson, auk alþjóðameistarans Guðmundar Kjartanssonar, en allir hafa þessir meistarar áður hampað Íslandsmeistaratitli. Í kvennaflokki hefur núverandi Íslandsmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, forystu.

 Keppendur á mótinu er alls 59 talsins. Þeir eru á ýmsum aldri, sá elsti er bandaríkjamaðurinn Viktos Pupols, fæddur árið 1934. Hann hefur það m.a. á afrekaskrá sinni að hafa lagt Bobby Fischer að velli. Lítil ellimörk eru á Pupols sem hefur þrjá vinninga eftir fimm umferðir. Yngsti keppandinn er hinn átta ára gamli Jósef Ómarsson, en nokkur börn og unglingar eru meðal keppenda.

Sjötta umferð mótsins hefst kl. 15 í dag; sjöunda og áttunda umferð á sama tíma næstu daga, en lokaumferðin hefst kl. 11 á laugardag. Þá ráðast m.a. úrslit í baráttunni um þá þrjá Íslandsmeistaratitla sem teflt er um að þessu sinni.  Í sjöttu umferð leiða m.a. saman hesta sína þeir Guðmundur Gíslason og Sokolov, Guðmundur Kjartansson og Hannes, Héðinn og Þröstur. Efsti heimamaðurinn, Mikael Jóhann Karlsson teflir við stórmeistarann Braga Þorfinnsson.

Teflt er í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og er öllum velkomið að fylgjast með skákunum á staðnum, segir í tilkynningu frá Akureyrarbær.

Nýjast