Akureyrarbær greiðir 3 milljónir í miskabætur vegna stöðuveitingar

Akureyrarbær.
Akureyrarbær.

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að greiða Snæfríði Ingadóttur þrjár milljónir króna í miskabætur vegna stöðuveitingar með vísan til álits umboðsmanns Alþingis. Forsaga málsins er sú að Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði að Akureyrarbær hefði ekki haft heimild til að afturkalla ráðningu Snæfríðar sem ráðin hafði verið í starf verkefnastjóra Akureyrarstofu.

Snæfríður var metin hæfust umsækjenda og henni tilkynnt að hún fengi starfið. Nokkru síðar var henni svo tilkynnt að ráðningin hefði verið afturkölluð þar sem hún hefði ekki lokið BA eða BS-prófi frá háskóla. 

Í auglýsingu var háskólapróf eitt þeirra skilyrða sem umsækjendur yrðu að uppfylla. Snæfríður hefur lokið tveggja ára prófi í blaðamennsku frá háskóla í Noregi og eins árs grunnnámi við Háskóla Íslands. Umboðsmaður telur að Akureyrarbær sé bundinn af því orðalagi sem var í auglýsingunni og geti ekki breytt hæfniskröfum eftirá.

Hvergi í auglýsingunni sé að finna kröfu um að hafa lokið bakkalárgráðu. Mörgum prófgráðum sé hægt að ljúka á styttri tíma og teljast þau engu að síður fullnaðarpróf.

Umboðsmaður Alþingis taldi að Akureyrarbær hafi því brostið skilyrði til að afturkalla ráðningu konunnar og enn fremur hafi bærinn ekki veitt henni neinn frest eða ráðrými til þess að mótmæla ákvörðun bæjarins. Því hafi málsmeðferð Akureyrarbæjar ekki verið í samræmi við rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga.

Með miskabótunum er málið að fullu uppgert.

Nýjast