Akureyrarbær braut á konu að mati Umboðsmanns Alþingis

Akureyrarbær hafði enga heimild til að afturkalla ráðningu konu sem ráðin hafði verið í starf verkefnastjóra Akureyrarstofu. Þetta er álit Umboðsmanns Alþingis og greint var fyrst frá á vef Ruv.is. 
 
Konan var metin hæfust umsækjenda og henni tilkynnt að hún fengi starfið. Nokkru síðar var henni svo tilkynnt að ráðningin hefði verið afturkölluð þar sem hún hefði ekki lokið BA eða BS-prófi frá háskóla. Í auglýsingu var háskólapróf eitt þeirra skilyrða sem umsækjendur yrðu að uppfylla. Konan hefur lokið 2ja ára prófi í blaðamennsku frá háskóla í Noregi og eins árs grunnnámi við Háskóla Íslands. 

Umboðsmaður telur að Akureyrarbær sé bundinn af því orðalagi sem var í auglýsingunni og geti ekki breytt hæfniskröfum eftirá. Hvergi í auglýsingunni sé að finna kröfu um að hafa lokið bakkalárgráðu. Mörgum prófgráðum sé hægt að ljúka á styttri tíma og teljast þau engu að síður fullnaðarpróf.

Umboðsmaður telur að Akureyrarbær hafi því brostið skilyrði til að afturkalla ráðningu konunnar og enn fremur hafi bærinn ekki veitt henni neinn frest eða ráðrými til þess að mótmæla ákvörðun bæjarins. Því hafi málsmeðferð Akureyrarbæjar ekki verið í samræmi við rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að leita leiða til að rétta hlut konunnar og að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu er fram kemur í frétt Rúv um málið. 

Akureyrarbær leitar sátta

Þá greinir Rúv frá því að Akureyrarbær ætli að boða konuna til sáttafundar vegna málsins. Þórgnýr Dýrfjörð, deildarstjóri Akureyrarstofu, segir að bærin hyggist fara að ábendingu umboðsmanns og boða konunnar til sáttafundar. Snæfríður Ingadóttir, konan sem í hlut á, sagði í samtali við fréttastofu Rúv að hún fagni því, en beri fundirnir ekki árangur, útilokar hún ekki að fara með málið fyrir dómstóla.

 

Nýjast