Áhyggjur af stöðu ungs fólks á Akureyri
Áfengis- og fíkniefnaneysla ungmenna í framhaldsskólum var efni fundar í Verkmenntaskólanum á Akureyri á dögunum en þar voru fulltrúar framhaldsskólanna á Akureyri, fulltrúar Barnaverndar Akureyrarbæjar, lögreglustjóri, yfirlögregluþjónn, sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar og áfengis- og fíkniefnaráðgjafi og félagsmála- og forvarnarfulltrúar Rósenborgar.
Frá þessu er greint á vef VMA og segir að á fundinum hafi komið fram áhyggjur fólks af stöðu mála hér á Akureyri. Ungmenni komist inn á skemmtistaði bæjarins þrátt fyrir að hafa ekki aldur til þess, æ fleiri sem ekki reykja sígarettur veipi og þá færist í vöxt að hassolía sé í veipvökvum. Fram komu áhyggjur af nemendum undir 18 ára aldri (lögaldri) í eftirlitslausum samkvæmum, bæði í foreldrahúsum og sölum sem þeir leigi til skemmtanahalds.
Könnun meðal grunnskólabarna og foreldra á Akureyri leiðir í ljós að samvera unglinga og foreldra samkvæmt niðurstöðum „Ungt fólk“ hefur minnkað síðan 2016. Einnig bendir þessi könnun til þess að foreldrar á Akureyri verji skemmri tíma með börnum sínum en aðrir foreldrar á landinu. Á fundinum kom mjög skýrt fram að foreldrar gegna lykilhlutverki í öllum forvörnum. Stefnt er að frekari fundahöldum um þessi mál á næstunni í því skyni að allir taki höndum saman um að ná utan um þetta vandamál. Liður í því er fundur með foreldrum framhaldsskólanema sem verður boðað til fljótlega eftir áramót, segir á vef VMA.