Áfrýjun hent út með ruslinu
Þá er baráttu minni við sýslumenn á Norðausturlandi lokið. Búinn að vera langur og strangur slagur síðan mér var sagt upp 30. september 2014 að undangenginni framkomu setts sýslumanns sem jaðraði við einelti. Sú uppsögn var ólögmæt og í andstöðu við vilja stjórnvalda þess efnis að engum skyldi sagt upp í aðdraganda sameiningar sýslumannsembætta á landinu.
Mér var gefið að sök að hafa neitað að sinna verkefnum eða taka að mér ný verkefni hjá embættinu. Þó var aldrei sýnt fram á að svo hafi verið í ferlinu öllu og fyrir dómstólum enda uppspuni og því stóð orð gegn orði. SFR ákvað að fjármagna lögsókn gegn embættinu og lýsti þar með stuðningi við minn málstað. Áður hafði ég með aðstoð lögfræðings á mínum vegum gert ítrekaðar tilraunir til sátta við sýslumann, en honum var ekki þokað en hvatti mig til að sækja um auglýst störf hjá embættinu. Það virtist þó aðeins í þeim tilgangi að niðurlægja mig og fékk ég hvorki starf í sumarafleysingu eða fast starf sem ég sótti um hjá embættinu.
Jafnframt þessu þræddum við alla króka og kima kerfisins. Erindi til umboðsmanns alþingis og fleiri ráðamanna auk stjórnsýslukæru til þá verandi innanríkisráðherra sem gerði hvað hann gat án árangurs, en sagðist loks ekki geta sagt sýslumanni fyrir verkum. Þá var ekki um annað að ræða en fara dómstólaleiðina. Ríkið er erfiður mótherji og nær útilokað fyrir einstakling að fara í þann slag. Maður kemst ekkert áleiðis án
lögfræðings, enda fylgir þessu mikið af bréfaskriftum og ekki fyrir aðra en þá sem þekkingu hafa á kerfinu að annast slíkt svo vel sé. Fyrstu viðbrögð ríkisins við ágreiningu eru oftast að benda mönnum á að leita til dómsstóla.
Þar með gefast eflaust um 90% upp en þau heppnu 10% sem hafa aðgang að lögfræðingi og stuðning stéttarfélags halda áfram. Þegar fyrir dómstóla er komið ætlaði ég hiklaust, af biturri reynslu, að halda því fram að ríkið hafi mun sterkari stöðu og allur vafi virðist dæmdur því í hag.
Málið tapaðist fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þrír sýslumenn báru vitni auk þess sem tveir starfsmenn af sýsluskrifstofunni, sem raunar áttu sjálfir hagsmuna að gæta, voru kallaðir til. Ég einn, ásamt lögmanni, virtumst ekki ná að heilla dómarann sem hvað upp lítt rökstuddan dóm sem sagði lítið annað en hann tryði ríkinu betur.
Rangur dómur að mínu mati og lögmanna minna og því var málinu áfrýjað til Landsréttar. Það verð ég að játa að ég gerði miklar væntingar til hins nýja réttar. Og það mega þeir eiga að þeir létu hendur standa fram úr ermum, nýttu aðeins 1 af 4 vikum sem þeir höfðu til verksins áður en þeir hentu áfrýjuninni út með ruslinu og vísuðu bara í dóm Héraðsdóms. Þar með höfðu sýslumenn komist í gegnum tvö dómskerfi á lyginni einni saman. Ég hefði svo sannarlega viljað sverja eið að framburði mínum og hefði þótt fróðlegt að sjá sýslumann gera slíkt hið sama.
Nú lítur málið hins vegar þannig út að ég hafi logið fyrir rétti. Það er dómur sem erfitt er að lifa með þrátt fyrir að vita það sjálfur að samviskan sé
hrein. Að lokum vil ég segja að ég hef því miður misst alla trú á íslensku dómskerfi, allt þetta helv.... regluverk er aðeins fyrir elítuna í þessu landi. Ætli það sé ekki best að draga sig inn í þá skel sem manni er ætluð og halda kjafti.