Aðgerðarhópur vegna vaxandi svifryksmengunar
Stofnaður hefur verið aðgerðarhópur með fulltrúum frá Akureyrarbæ, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Vegagerðinni til að sporna við vaxandi svifryksmengun á Akureyri. Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að aukinn styrkur svifryks hafi undanfarið mælst á loftgæðamælistöð Akureyrarbæjar og Umhverfisstofnunar sem er við Strandgötu á móts við Hof. Við slíkar aðstæður getur fólk sem er viðkvæmt í öndunarfærum fundið fyrir óþægindum. Í þann hóp falla öll ung börn og hluti aldraðra.
Mikil umferð á Akureyri er meginorsök svifryksmengunarinnar í bænum. Þá segir í tilkynningu að ljóst sé að verklag við hálkuvarnir vegi þungt í orsök svifryks á Akureyri. Veturinn 2017-2018 var dreift tæplega 1100 tonnum af malarefni á götur bæjarins til hálkuvarna. Svifryksmengun er venjulega mest í nágrenni við miklar umferðargötur. Mengunin eykst mikið þegar vegyfirborð þornar að vetri til og götur eru rykugar eftir hálkuvarnir með malarefnum og gatnaslit af völdum nagladekkja. Sveiflur innan hvers dags fylgja álagstímum í umferðinni.