90% bæjarbúa ánægðir með búsetu á Akureyri
Níu af hverjum tíu Akureyringum eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á, samkvæmt niðurstöðum nýrrar þjónustukönnunar Gallup. Gallup hefur um nokkurt skeið gert árlega viðhorfskönnun meðal íbúa gagnvart þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins. Á vef Akureyrarbæjar segir að almennt virðist Akureyringar ánægðir með þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir.
Í flestum þjónustuþáttum sem spurt var um er ánægjan jöfn því sem mældist árið á undan. Á þetta t.d. við um þjónustu grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og leysir úr erindum bæjarbúa. Samkvæmt könnuninni minnkar hins vegar ánægja með skipulagsmálin, gæði umhverfis í nágrenni heimilis og aðstöðu til íþróttaiðkunar frá árinu á undan. Þegar spurt var um skipulagsmálin voru 38% óánægð og aðeins 25% ánægð.
Á móti þá eru töluvert fleiri ánægðir með þjónustu við fatlað fólk en árið á undan og þá eru íbúar marktækt ánægðari með þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara. Könnunin var gerð á tímabilinu 26. nóvember 2019 til 8. janúar 2020. 499 íbúar á Akureyri svöruðu könnuninni.