8,7 milljarða hagnaður hjá Samherja
Samherji skilaði góðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2018. Tekjur Samherja námu um 43 milljörðum króna og hagnaðurinn af rekstri nam 8,7 milljörðum. Í frétt á heimasíðu Samherja segir að árið hafi að sumu leyti verið sérstakt fyrir fyrirtækið. „Þetta er fyrsta heila árið sem Samherji gerir ekki út neinn bolfiskfrystitogara frá Íslandi. Félagið hóf rekstur með einum frystitogara og þeir hafa í gegnum tíðina gegnt veigamiklu hlutverki í rekstri okkar þannig að þetta er mikil breyting á fyrirtækinu. Sjófrystingu á uppsjávarfiski lauk einnig á árinu með sölu á Vilhelm Þorsteinssyni EA sem hefur verið eitt fengsælasta skip Íslandssögunnar,“ segir á vef Samherja.
„Spennandi tímar framundan“
|
„Við höfum haldið áfram uppbyggingu á innviðum Samherja. Nýlega var sjósettur nýtogari Útgerðarfélags Akureyringa sem fær nafnið Harðbakur. Framkvæmdir við nýja fiskvinnslu á Dalvík halda áfram af fullum krafti og stefnt er á að geta hafið vinnslu í nýju og glæsilegu hátæknihúsi á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þá á að afhenda Vilhelm Þorsteinsson, nýtt uppsjávarskip okkar, um mitt sumar 2020. Það eru spennandi tímar framundan“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja