86 milljónir til uppbyggingar á Norðurlandi eystra
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað 200 milljón kr. viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða á árinu 2020 með hliðsjón af vinnu stjórnar sjóðsins frá úthlutun ársins 2020 í mars sl. Af þessum fjármunum fara um 86 milljónir til uppbygginga á Norðurlandi eystra.
Akureyrarbær fær 21.485.000 milljónir kr. til framkvæmda á stígagerð og brúun í fólkvangnum á Glerárdal frá bifreiðastæði að Lamba (skála Ferðafélags Akureyrar). Langanesbyggð fær 30.000.000 milljónir kr. vegna hafnartanga á Bakkafirði og Norðurþing fær 35.000.000 kr. vegna Bifrastar við Heimskautsgerði.
Með fjárveitingunni, sem er hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna Covid-19 faraldursins, verður unnt að hraða uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum um allt land sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Alls hlutu 15 verkefni, til viðbótar við þau 33 verkefni sem tilkynnt var að fengju styrk úr sjóðnum í mars sl., brautargengi.
Stærstur hluti úthlutunarinnar, eða 43%, rennur til verkefna á Norðurlandi eystra, segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.