560 einstaklingar mættu á göngudeild SÁÁ í fyrra
Hörður J. Oddfríðarson, forstöðumaður göngudeildar SÁÁ á Akureyri, segist bjartsýnn á að göngudeildin muni opna á ný fljótlega. Eins og fram hefur komið var deildinni lokað þann 1. mars þar sem ekki höfðu náðst samningar milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um rekstur göngudeildarinnar. Hörður segist vongóðari nú en í síðustu viku.
„Það er mikill vilji hjá Akureyrarbæ að klára þetta mál og ég trúi ekki öðru en að það náist svo samningar milli SÁÁ og SÍ. Í sjálfu sér er ekkert annað í kortunum að samningar náist. Ekki nema að SÍ neiti hreinlega að semja. Ég trúi ekki að það gerist,“ segir Hörður.
Á síðasta ári mættu um 560 einstaklingar u.þ.b. 1.650 sinnum á göngudeildina á Akureyri. Að sögn Harðar er það heldur fækkun frá fyrra ári, sem skýrist fyrst og fremst af því að fréttaflutningur fyrri hluta ársins var með þeim hætti að fólk hélt að það væri búið að loka deildinni. Seinni hluti ársins er á pari við fyrra ár. „Þá er einnig vert að hafa í huga að við drógum úr viðveru ráðgjafa um 25% á síðasta ári,“ segir Hörður.
Bæjarráð Akureyrar hefur lýst yfir vonbrigðum með að samningar hafi ekki náðst á milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri. Bæjarráð óskar jafnframt eftir skýringum frá SÁÁ og Sjúkratryggingum Íslands á því hvers vegna samningar hafa ekki náðst. Enn fremur óskar bæjarráð eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands um hvort til greina komi að semja við aðra aðila um sambærilega göngudeildarþjónustu fyrir fíkla og aðstandendur þeirra á Akureyri.