16,4 milljónir til Akureyrar úr húsafriðunarsjóði

Minjasafnskirkjan og Nonni. Mynd/Akureyri.is.
Minjasafnskirkjan og Nonni. Mynd/Akureyri.is.

Nýverið var tilkynnt um úthlutanir úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2020 til viðhalds og viðgerða á friðlýstum og friðuðum húsum. Akureyrarbæ var úthlutað 3,2 milljónum króna til viðhalds á Samkomuhúsinu, Nonnahúsi, Sigurhæðum og Húsi Hákarla-Jörundar í Hrísey.

Einnig er 900 þúsund krónum úthlutað til viðhalds á Minjasafnskirkjunni, 800 þúsund krónum til Lögmannshlíðarkirkju og 11,5 milljónum til viðhalds á öðrum friðuðum og friðlýstum húsum í bænum. Þau eru Hoepfnershús, Zontahúsið, Aðalstræti 17, Hafnarstræti 23, gamla Kaupfélagshúsið að Hafnarstræti 90 og gamla símstöðin að Hafnarstræti 3.

Umsækjendur um framlög úr húsafriðunarsjóði eru sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, félagasamtök, áhugamannahópar og einstakir húseigendur.

Nýjast