20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Stúlknakórinn söng í Danaveldi
Stúlknakór Húsavíkur er nýkominn heim frá Danmörku eftir vel heppnað norrænt kóramót sem heitir Norbusang.
Á hverju ári er þetta kóramót haldið víðs vegar um norrænu löndin og verður t.d. haldið á Íslandi árið 2018. Að þessu sinni voru 5 kórar frá Íslandi mættir til leiks, Stúlknakór Húsavíkur, Kór Lækjarskóla, Kór Öldutúnsskóla, Skólakór Vatnsendaskóla og Liljurnar frá Austfjörðum.
Kóramótið var haldið í Holsterbro á Jótlandi. Eftir næturkeyrslu frá Húsavík mættum við á Keflavíkurflugvöll þaðan sem við flugum til Kaupmannahafnar þriðjudagsmorguninn 3. maí.
Þaðan tókum við rútu til Holsterbro þar sem mótið var haldið. Við gistum ásamt flestum þátttakendum í Sct Jörgens Skole en eldri þátttakendur gistu í öðrum skóla. 500 börn og unglingar sungu saman á hverjum morgni til að æfa sameiginlega verkið sem heitir Du vilde himmel! Það er kórverk sem samið var sérstaklega fyrir kóramótið og fjallar um Páskahátíðina. Það eru 7 kaflar í verkinu og söng hver smiðja 1 kafla sér en allir sungu 7. kaflann saman. 5 dönsk tónskáld sömdu þetta kórverk.
Eftir samsöng tóku við söngsmiðjur það sem eftir var af deginum. Okkar smiðja hét Norræn sumarstemning þar sem sungin voru létt lög samin af norrænum tónskáldum. Kórstjórinn sem stýrði okkar smiðju heitir Jakob Laurentzen. Hann samdi þann kafla sem okkar smiðja söng, 3.kafla, auk þess samdi hann lokakaflann og stýrði því öllum sameiginlegu kóræfingunum. Jakob var mjög hress og skemmtilegur. Hann hrósaði okkur mikið fyrir það hvað kórinn var vel undirbúinn. Hóffý hafði nefnilega aðstoðað okkur á kóræfingum því okkar kafli var með þeim erfiðustu og þurftum við stundum að syngja í 5 röddum!
Við kynntumst fullt af krökkum, foreldrum og kórstjórum frá ólíkum löndum. Sumar af stelpunum voru farnar að tala smá dönsku og skildum við alltaf meira og meira á hverjum degi. En, við töluðum þó aðallega ensku.
Lokatónleikarnir voru á laugardagskvöldinu 7.maí í risastóru tónlistarhúsi sem heitir Musikteatret. Þar sungum við með okkar hóp 3 lög. Í lokin sungum við svo Du vilde himmel! Fyrr um daginn höfðum við sungið 2 lög í verslunarmiðstöð þannig að þessi dagur var mjög svo langur og það í 25°C!
Á hverju kvöldi voru ýmist tónleikar, kvöldvaka eða diskó fyrir krakkana.
Þrátt fyrir að syngja mjög mikið alla daga þá fengum við að kíkja aðeins í búðir, fórum í sund, gönguferðir, út að borða og svo lokanóttina gistum við á mjög fínu gistiheimili. Það var gott veður og mjög heitt alla vikuna sem við dvöldum í Holsterbro. Flogið var heim frá Billund og það var fínt að þurfa ekki að keyra aftur alla leið til Kaupmannahafnar. Við komum heim þreyttar en alsælar eftir vel heppnað kórferðalag og erum þegar farnar að hugsa til Norbusang að ári sem haldið verður í Bergen.
Að lokum viljum við Stúlknakór Húsavíkur þakka öllum þeim sem styrktu okkur í vetur. Án ykkar hefði þessi ferð aldrei orðið að veruleika. Þakkir fá einnig mömmurnar sem voru fararstjórar í ferðinni, Kolbrún Ada, Erla Kristín og Berglind Dagný.
-Ásta Magnúsdóttir, kórstjóri Stúlknakórs Húsavíkur.
- Skarpur, 19. maí