20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Sjúkraliðinn og kennarinn í framboð
Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
Hér áður fyrr skrifaði ég um sjúkraliða, störf þeirra, kjör, vöntun á sjúkraliðum og starfsaðstæður. Undanfarin hálfan annan áratug var umfjöllunarefnið um málefni grunnskólans og grunnskólakennara. Kjör grunnskólakennara eru til umræðu í samfélaginu í dag. Beðið eftir að sveitarfélög og ríki geri kjarasamning við kennara á öllum skólastigum. Vöntun er á báðum þessum stéttum í samfélaginu.
Nú vendir höfundur kvæði sínu í kross. Mun reyna fyrir mér á pólitíska vettvangnum, Alþingi.
Þegar tilboðið kom um sæti á lista Lýðræðisflokksins í Norðaustur kjördæmi varð að ígrunda málið. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að slá til. Eitt af því sem Lýðræðisflokkurinn leggur áherslu á er einstaklingsfrelsið en í stefnuskrá flokksins segir ,,Einstaklingsfrelsi er kjarninn í stefnu Lýðræðisflokksins. Við lagasetningu skal ávallt spyrja lykilspurningarinnar: Er einstaklingsfrelsi aukið eða minnkað með þessum lögum? Hér er um mikilvægt málefni að ræða sem þingmenn ættu að hafa hugfast við hverja einustu lagasetningu.
Sjúkraliðinn og kennarinn er ekki reynslulaus í félagsmálum sem magrir líkja við stjórnmál. Sat í stjórn Sjúkraliðafélagsins í nærri tvo áratugi og var formaður sjúkraliða á Norðurlandi eystra á sama tíma. Sama hef ég gert fyrir kennarastéttina.
Ég lét gott af mér leiða innan Slysavarnadeildarinnar Dalvík. Var þar formaður um nokkurra ára skeið og bý vel af þeirri reynslu og þátttöku á ýmsum vettvangi innan Landsbjargar.
Í spjalli við góða konu, um miðjan október, sagði hún þessa setningu; þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Skyldi það hafa gerst nú. Hvort dyrnar opnist að fullu er undir kjósendum svæðisins komið. Ber einlæga von í brjósti að menn sjái eitthvað í framboðinu sem þeir vilja styðja. Yrði mikill heiður af því.
Þegar nýliðar stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum er margt að læra og setja sig inn í. Lýðræðisflokkurinn hefur gott fólk á sínum snærum sem kemur víðs vegar að úr samfélaginu. Einstaklingar innan flokksins munu styrkja hvor annan og málefnin.
Heimasíðu flokksins má lesa hér, Heim | Lýðræðisflokkurinn
Helga Dögg Sverrisdóttir, sjúkraliði og grunnskólakennari í 2. sæti fyrir Lýðræðisflokkinn í Norðausturkjördæmi.