Ísland í 80 ár! Málþing um stöðu og þróun lýðveldis og lýðræðis á Íslandi
Hömrum, Menningarhúsinu Hofi, Akureyri, laugardag 4. maí 2024, kl. 14:00-17:00.
AkureyrarAkademían stendur fyrir opnu málþingi í tilefni af því að á þessu ári eru 80 ár frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi þann 17. júní 1944. Málþinginu er ætlað að vera vettvangur fyrir samræður og skoðanaskipti fræðimanna og almennings um lýðveldisstofnunina, stöðu og þróun lýðveldis og lýðræðis á Íslandi. Hvernig hefur tekist til? Hvaða lærdóma má draga?
Málþingsstjóri er Þorgerður Anna Björnsdóttir, kínverskufræðingur, verkefnastjóri við
Konfúsíusarstofnun Háskóla Íslands og félagi í AkureyrarAkademíunni.
Í tengslum við málþingið verða sýndar ljósmyndir frá Akureyri þegar bæjarbúar fögnuðu stofnun lýðveldis á Íslandi 17. júní 1944 sem Minjasafnið á Akureyri hefur tekið saman.
Umræður á málþinginu fara fram í tveimur málstofum með þátttöku fræðimanna við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands.
Dagskrá
Kl. 14:00. Setning.Sigurgeir Guðjónsson, stjórnarformaður AkureyrarAkademíunnar.
Kl. 14:10. Fyrri málstofa. Lýðveldið í sögulegu ljósi.
Þátttakendur:
- Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
- Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
- Umræðustjóri: dr. Sigrún Stefánsdóttir, stundakennari við hug-og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og sjálfstætt starfandi fjölmiðlafræðingur.
Áherslur:
Hvað er stjórnarskrá og til hvers er hún? Hverju breyttu Íslendingar í henni? Hver er sagan á bak við 26. greinina? Aðkoma kvenna að breytingum á stjórnarskránni og hverju náðu þær í gegn? Þjóðaratkvæðagreiðslan einstæða við lýðveldisstofnunina. Hvað fannst Dönum og Kristjáni 10. konungi um framvindu mála á Íslandi? Rigningardagurinn mikli 17. júní 1944 - gildi hans í hugum þjóðarinnar? Hvað varð um fjallkonuna á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum? Forsetaembættið og Sveinn Björnsson. Hver var maðurinn og var sátt um hann? Hvernig var hann valinn til embættisins? Hvaða áhrif hafði hann og hverjar eru meginbreytingar á embættinu eins og það er í dag? Var tímasetningin á stofnun lýðveldisins rétt í ljósi sögunnar? Hvað veit unga kynslóðin um þessi tímamót í sögu þjóðarinnar?
Kl. 15:10. Kaffihlé.
Kl. 15:45. Seinni málstofa. Lýðræði og stjórnskipan íslenska lýðveldisins.
Þátttakendur:
- Eva Heiða Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
- Þorvaldur Gylfason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands.
- Umræðustjóri: Birgir Guðmundsson, prófessor í fjölmiðla- og stjórnmálafræði og deildarforseti við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.
Áherslur:
Hvað einkennir íslenskt lýðræði og hvernig það hefur þróast á lýðveldistímanum. Jafnframt verður kastljósinu beint að hugmyndum um úrbætur á lýðræði og stjórnskipaninni og tekist á við áleitnar spurningar. Hvernig stöndum við í samanburði við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við? Hvaða áhrif hefur gjörbreytt flokkakerfi á stjórnarfarið og hvaða áhrif hefur það á hlutverk stjórnmálaflokkanna? Hvaða úrbætur eru brýnar til að efla lýðræðið? Dugir tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá til að tryggja úrbætur? Hvað með þjóðaratkvæðagreiðslur eða aukið persónukjör?
Kl. 17:00. Málþingslok.Sigurgeir Guðjónsson, stjórnarformaður AkureyrarAkademíunnar.
Kynning á þátttakendum í málstofum
Birgir Guðmundsson er prófessor og deildarforseti við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Hann kennir þar fjölmiðla- og stjórnmálafræði. Helstu rannsóknarsvið hans lúta að pólitískri boðmiðlun, fjölmiðlakerfum og fjölmiðlasögu og áhrifum nýmiðlunar á upplýsingaumhverfi stjórnmálanna og hefur hann skrifað fræðigreinar og bækur um þau efni. Birgir lærði í Bretlandi og Kanada en lauk doktorsprófi sínu frá HÍ. Hann var um árabil í blaðamennsku og hefur gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum fyrir félög og fyrirtæki.
Eva Heiða Önnudóttir er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Helstu rannsóknaáherslur hennar eru á sviði kosningahegðunar, stjórnmálaflokkar og stjórnmálaelítur, kosningar og framkvæmd lýðræðis. Hún hefur birt greinar í tímaritum eins og Party Politics, Representation, West-European Politics, Icelandic Review of Politics & Administration and Scandinavian Political Studies, og er einn höfunda bókarinnar Electoral Politics in Crisis After the Great Recession. Eva Heiða hefur leitt Íslensku kosningarannsóknina frá árinu 2016 og er jafnframt í stjórn the Comparative Candidate Surveys, Consortium of National Election Studies og í undirbúningsnefnd fyrir 7undu lotu the Comparative Political Systems. Eva Heiða hefur verið formaður the Nordic Political Science Association frá 2021.
Guðmundur Hálfdánarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk kandídatsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1982 og doktorsprófi frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum árið 1991. Hann hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1991.
Ragnheiður Kristjánsdóttir er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við þjóðernisstefnu, lýðræði, vinstri stjórnmál og sögu kvenna. Hún er ritstjóri Scandinavian Journal of History. Meðal verka hennar er bókin Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901–1944 og bókin Konur sem kjósa. Aldarsaga sem hún skrifaði ásamt þremur öðrum höfundum. Síðar á þessu ári er væntanleg bókin Suffrage, Capital and Welfare: Conditional Citizenship in Historical Perspective sem hún ritstýrir ásamt Fiu Sundevall.
Dr. Sigrún Stefánsdóttir er stundakennari við hug-og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og sjálfstætt starfandi fjölmiðlafræðingur. Hún er með doktorspróf í fjölmiðlafræði frá Minnesota háskóla í Bandaríkjunum og einnig með meistarapróf og B.A.-próf í sama fagi. Hún hefur kennt fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri um árabil. Sigrún var forseti hug- og félagsvísindasviðs á árunum 2013-2016. Sigrún hefur umfangsmikla reynslu af fjölmiðlastörfum. Hún hefur starfað lengst hjá Ríkisútvarpinu, fyrst sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður en síðar sem dagskrárstjóri. Hún vann einnig sem yfirmaður Endurmenntunarstofnunar norrænna blaðamanna, NJC og var yfirmaður kynningardeildar Norrænu ráðherranefndarinnar. Sigrún er fædd og uppalin á Akureyri en hefur búið víða, í Reykjavík, Osló, Árósum, Kaupmannahöfn og Minneapolis. Nú býr hún ýmist á Akureyri eða Reykjavík.
Þorvaldur Gylfason er prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands (frá 1983) og rannsóknarfélagi við CESifo (Center for Economic Studies) við Háskólann í München (frá 2000). Hann lauk doktorsprófi frá Princeton-háskóla 1976, var hagfræðingur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) í Washington, DC, 1976-81, rannsóknarfélagi við IIES (Institute for Interntional Economic Studies) við Stokkhólmsháskóla 1978-96, gistiprófessor í Princeton-háskóla 1986-88, ritstjóri European Economic Review 2002-10 auk ráðgjafarstarfa fyrir margar alþjóðastofnanir. Eftir hann liggja um 300 birtar fræðigreinar og 24 bækur auk 1.200 blaðagreina og 140 sönglaga. Hann var einn af 25 fulltrúum í Stjórnlagaráði frá 1. apríl til 29. júlí 2011, kjörinn af þjóðinni og skipaður af Alþingi til að endurskoða stjórnarskrá Íslands.