Völsungar munu leika á PCC-vellinum næstu árin
Íþróttafélagið Völsungur og PCC BakkiSilicon hafa undirritað tímamóta samstarfssamning til næstu tveggja ára.
,,Það var alltaf markmiðið hjá PCC BakkiSilicon að koma meira að samfélagsmálum þegar rekstur fyrirtækisins væri kominn á rétt ról. Það ríkir því mikil ánægja hér innandyra að geta komið að því öfluga starfi sem unnið er innan Völsungs á þennan hátt,“ sagði Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC BakkiSilicon við undirritun sem fór fram á skrifstofu PCC á Bakka í dag
Í samkomulaginu felst meðal annars að knattspyrnuvöllurinn og íþróttahöllin á Húsavík munu bera nafn PCC. Jafnframt mun Völsungur leggja áherslu á að virkja starfsfólk PCC og börn þeirra til íþróttaiðkunar. Sérstök áhersla verður lögð á íþróttaiðkun barna af erlendum uppruna.
,,Það er gríðarleg ánægja innan Völsungs með samstarfið og að PCC komi af fullu afli að starfi Völsungs. Þess má geta að allar deildir félagsins munu njóta góðs af þessu samstarfi,” sagði Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs