Stórt alþjóðlegt skíðagöngumót í Hlíðarfjalli
Dagana 18.-20. mars 2022 heldur Skíðafélag Akureyrar síðasta mótið í alþjóðlegu skíðagöngumótaröðinni Scandinavian Cup.
Scandinavian Cup er mótaröð á vegum Alþjóða Skíðasambandsins (FIS) sem haldið er á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum á hverju ári. Í ár hafa farið fram mót í Beitostölen í Noregi, Falun í Svíþjóð, Otepää í Eistlandi og mun síðasta mótið fara fram á Akureyri. Mótið er gríðarlega sterkt og hingað mæta skíðagöngumenn sem m.a. hafa verið að taka þátt í heimsbikarmótum í ár. Þetta er í fyrsta skipti sem Scandinavian Cup er haldið á Íslandi og má því sannarlega segja að þetta sé allra sterkasta skíðagöngumót sem haldið hefur verið hér á landi.
Aðstæður í Hlíðarfjalli eru góðar og eru brautir sérstaklega gerðar m.t.t. þess að geta haldið mót af þessari stærðargráðu - m.a. þarf breidd brauta, lengd og klifur að vera skv. reglugerð FIS – en allar brautir eru teknar út og vottaðar af alþjóða skíðasambandinu.
Til leiks eru skráðir tæplega 70 skíðamenn og konur frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Litháen, auk þess sem íslenska landsliðið tekur allt þátt í mótinu. Því til viðbótar má búast við fjölmennu liði þjálfara og aðstoðarfólks. Undirbúningur hefur staðið yfir í heilt ár til að kappkosta að allt gangi sem best þegar að mótahaldi kemur – en m.a. þarf að huga að gistingu, mat, ferðalögum, áburðaraðstöðu, brautum, mótsskrifstofum, o.fl. sem ekki flokkast beint til keppnishaldins.
Keppt verður í sprettgöngu karla og kvenna föstudaginn 18. mars. Sprettganga er skemmtilegt fyrirkomulag þar sem nokkrir keppendur fara saman í stutta braut (konur 1200 m og karlar 1400 m) og keppt er með útsláttarfyrirkomulagi. Í sprettgöngu er oft mikil barátta og brugðið getur til beggja vona.
Laugardaginn 19. mars er svo keppt einstaklingsstarti þar sem konur fara 10 km og karla 15 km með frjálsri aðferð.
Sunnudaginn 20. mars er svo keppt með hópræsingu sem er fyrirkomulag sem er sérlega skemmtilegt áhorfs. Þá ganga karlar og konur 15 km.