Stelpurnar í U17 í blaki unnu gull í Danmörku
U17 ára landslið Íslands í blaki með margar norðlenskar stúlkur innanborðs gerði sér lítið fyrir og sóttu gull á NEVZA mótinu í Ikast í Danmörku sem lauk í dag. Á mótinu léku auk Íslands lið Danmerkur, Noregs og Færeyja.
Í landsliðinu eru Agnes Björk Ágústsdóttir, Heiðdís Edda Lúðvíksdóttir, Kristey Marín Hallsdóttir, Sigrún Marta Jónsdóttir og Sigrún Anna Bjarnadóttir allar frá Völsungi og Amelía Ýr Sigurðardóttir frá KA eru í landsliðshópnum.
Þjálfarar U17 stúlkna eru Völsungarnir, þau Tamas Kaposi og Tamara Kaposi-Peto og liðsstjóri í ferðinni er Lúðvík Kristinsson, formaður blakdeildar Völsungs.
Liðið tapaði fyrsta leik sínum á mótinu 0-3 gegn sterku liði Danmerkur, 25-18, 25-21 og 25-17. En stelpurnar svöruðu heldur betur fyrir sig í kjölfarið, fyrst vannst 3-1 sigur á liði Færeyja 25-11, 17-25, 25-18 og 25-16 og því ljóst að lokaleikur riðilsins gegn Noregi myndi skera úr um hvort liðið myndi mæta heimastúlkum í úrslitaleiknum.
Noregur hafði tapað í oddahrinu gegn Dönum og var því með 4 stig fyrir leikinn en Ísland með 3. En stelpurnar sýndu frábæran leik og fóru með afar sannfærandi 3-0 sigur af hólmi þar sem Ísland vann 25-20, 25-12 og 25-20 sigra í hrinunum þremur og heldur betur stígandi í spilamennsku liðsins.
Úrslitaleikurinn fór svo fram í dag og þar sýndu stelpurnar sinn besta leik til þessa og gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-0 sigur, 25-20, 25-12 og 25-19. Frábær frammistaða hjá liðinu sem kemur því til baka með gull en þetta var fyrsta NEVZA mótið sem hefur verið haldið undanfarin tvö ár vegna Covid veirunnar.