Sandra María snýr aftur heim
Þór/KA hefur samið við Söndru Maríu Jessen um að leika með liðinu næstu tvö tímabil. Sandra María kemur Bayer 04 Leverkusen þar sem hún hefur verið frá janúar 2019.
Á heimasíðu félagsins er greint frá því að Sandra María sé klárlega mikill fengur fyrir Þór/KA. "Eins og stuðningsfólk okkar veit er hún öflugur leikmaður, markaskorari og kemur með mikla reynslu inn í ungan leikmannahóp okkar, bæði úr deildinni hér heima, með landsliðinu og úr atvinnumennskunni erlendis," segir á heimasíðunni.
Sandra María á að baki 163 meistaraflokksleiki með Þór/KA þar sem hún skoraði 89 mörk, þar af 73 í efstu deild. Aðeins Rakel Hönnudóttir hefur skorað fleiri mörk fyrir Þór/KA í efstu deild, 74, þannig að vonandi fáum við að sjá Söndru Maríu bæta það met í sumar. Sandra María hefur jafnframt, ásamt Örnu Sif Ásgrímsdóttur, leikið flesta Evrópuleiki fyrir félagið, en báðar hafa spilað átta Evrópuleiki.