KA/Þór þrefaldir meistarar
KA/Þór er þrefaldur meistari í handknattleik árið 2021 eftir öruggan sigur gegn Fram 26:20 í úrslitaleiknum í bikarkeppni kvenna, Coca Cola-bikarnum, á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag.
KA/Þór vann því deildina, Íslandsmótið og nú bikarkeppnina sem frestað var síðasta vetur vegna heimsfaraldursins.
Rut Jónsdóttir var valin besti leikmaður úrslitahelgarinnar. Rut skoraði 5 mörk í úrslitaleiknum í dag og lagði upp önnur fimm.
KA/Þór hafði þriggja marka forskot í hálfleik 12:9. Fram náði mest að minnka muninn í þrjú mörk þegar KA/Þór hafði verið með sex marka forskot. KA/Þór náði mest sjö marka forskoti í leiknum og sigurinn var ekki í hættu á lokamínútum leiksins.